Hrun í flugi hefur engin áhrif á fíkniefnamarkaðinn

24.04.2020 - 18:48
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Lögregla og tollur hafa aukið eftirlit með mögulegu fíkniefnasmygli á sjó eftir að flug nánast lagðist af. Framboð á sterkum fíkniefnum hefur ekkert minnkað í ástandinu, að sögn lögreglu.

Í fyrra lagði lögregla hald á mun meira kókaín en nokkru sinni fyrr, 40 kíló sem fyrst og fremst komu hingað með farþegaflugi. En þótt farþegaflug til landsins sé nánast ekkert í COVID-ástandinu, um eða innan við eitt prósent af því sem áður var, segir lögregla að enginn skortur sé á kókaíni á Íslandi – frekar en öðrum hörðum fíkniefnum.

„Við höfum verið í sambandi við okkar tengiliði og samstarfsaðila og það eru allir sammála um að það er ekki skortur á þessum efnum. Og við erum heldur ekki að sjá að verð á fíkniefnum sé að hækka, en það er ein vísbending sem kemur upp þegar skortur er,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu.

„Það getur skýrst, varðandi kókaínið, af því að það hafi bara verið nóg til – og sé nóg til í landinu. Svo höfum við verið að taka þessar amfetamínframleiðslur. Menn færa sig bara meira í að framleiða hér á landi.“

Hátt í 90% fíkniefna í Evrópu flutt sjóleiðina

Nú þegar flug hafi nánast lagst af leggi lögregla meiri áherslu á sjóflutningana.

„Það hefur svo sem komið fram, eins og til að mynda hjá Europol, að hátt í 90% þeirra fíkniefna sem flutt eru til Evrópu fara sjóleiðina og ég held að það sé enginn undantekning hér – klárlega ekki,“ segir Margeir.

„Við beinum spjótum okkar meira að því og erum í góðu samstarfi við Tollinn varðandi það, þannig að það er eitt af því sem við erum að veita sérstaka athygli.“

Verkefnastjóri Frú Ragnheiðar hjá Rauða krossinum sagði við fréttastofu í síðustu viku að skortur væri á vímuefnum fyrir veikustu fíklana og að ofbeldi innan þess hóps hefði aukist. Sá hópur reiðir sig mikið á lyfseðilsskyld lyf og Margeir segist minni yfirsýn hafa yfir þann markað. Hann segist hins vegar ekki hafa tekið eftir því að ofbeldi hafi aukist meðal þess hóps frá því sem áður var.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi