Frumvarp ráðherra sagt „aðför að neytendum“

24.04.2020 - 16:23
Mynd með færslu
 Mynd: Pixar
Fjöldi ferðaskrifstofa stefnir í gjaldþrot verði frumvarp ferðamálaráðherra ekki að lögum. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Í frumvarpinu er kveðið á um heimild til að gefa út inneignarnótur fyrir þær pakkaferðir sem er aflýst vegna farsóttarinnar í stað þess að endurgreiða þær að fullu eins og núverandi lög kveða á um. ASÍ varar við því að velta vanda fyrirtækja yfir á neytendur og læknanemar sem ætluðu að fara í útskriftarferð sjá fram á að tapa 300 þúsund krónum hver.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögnum um frumvarpið.  Nánast allt millilandaflug hefur legið niðri vegna kórónuveirufaraldursins og ferðamannaiðnaðurinn er algjörlega frosinn, bæði hér á landi og erlendis.

Aðgerð til að bregðast við fordæmalausum vanda

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu segir í umsögn sinni að breytingin sé í fullu samræmi við það sem aðrar þjóðir í Evrópu hafi gert. Þetta sé tímabundinn aðgerð til að bregðast við fordæmalausum vanda. 

Hann bendir á að stórtækar endurgreiðslur muni þurrka hratt upp lausafé ferðaskrifstofa og hrekja þær í gjaldþrot. Þá verði rétturinn til endurgreiðslu bundinn við „fyrstir koma, fyrsta fá.“ „Þeim mun fleiri sem krefjast endurgreiðslu, þeim mun aukast líkur á gjaldþroti fyrirtækjanna,“ skrifar Jóhannes.

Ferðaskrifstofur fá tækifæri til að lifa af

Umsögn Ferðamálastofu er í svipuðum dúr.  Ferðaskrifstofur séu misjafnlega í stakk búnar til að takast á við endurgreiðslur. Þær hafi unnið að því að semja við viðskiptavini sína, sumum ferðum hafi verið frestað um óákveðin tíma, öðrum fram á haust en mörgum fram á næsta ár. 

Breytingin gefi ferðaskrifstofum tækifæri til að lifa farsóttina af. Verði hún ekki samþykkt séu miklar líkur á því að þær verði gjaldþrota þar sem hratt muni ganga á lausafé. Gerist það muni viðskiptavinir þurfa að bíða lengi eftir endurgreiðslu og er nefnt sem dæmi að vinnsluferli ferðaskrifstofunnar Gaman ehf hafi tekið fimm mánuði. 

Mikilvægara nú en áður að virða rétt neytenda

En það eru ekki allir jafn hrifnir. ASÍ varar til að mynda við því að vanda fyrirtækja sé velt yfir á neytendur.  Aðstæður þeirra hafi gjörbreyst á skömmum tíma og margir nú þegar orðið fyrir tekjumissi.  Forsendur hafi breyst þannig að neytendur geti margir hverjir þurft á því að halda að ráðstafa peningunum á annan hátt.  Ef eitthvað er sé því enn mikilvægara en áður að þessi lögbundni réttur neytenda til að fá endurgreitt sé virtur.  Þeir séu að taka áhættu á að tapa sínum peningum. 

BSRB segist í umsögn sinni efast um að frumvarpið standist stjórnarskrá.  Ekki sé „að lausafjárvanda ferðaskrifstofa, og annarra fyrirtækja er geta nýtt sér framangreinda heimild, verði velt yfir á einstaklinga og fjölskyldur.“  Bandalagið hafi þó fulla samúð með þeirri stöðu sem fyrirtækin standi framm fyrir.

Neytendasamtökin taka enn dýpra í árinni og segja í umsögn sinni að frumvarpið  sé „aðför að rétti neytenda,“. Á það er bent að þetta henti heldur ekki öllum, til að mynda hópum sem hafi ætlað í ferðir af sérstökum ástæðum, til að mynda útskriftahópar eða fólk sem ætlaði í afmælisferðir.

Læknanemar sjá eftir útskriftaferðinni

Og það eru margir sem sitja eftir með sárt ennið eins og sést í umsögn frá 50 læknanemum og mökum þeirra sem hafa „skrapað saman, fengið að láni og unnið fyrir útskriftarferð.“  Ferðin átti að vera í lok næsta mánaðar. 

Þeir hafi lagt út 300 þúsund krónur en sjái nú ekki fram á að fá þann pening til baka.. Margir hafi tekið aukavaktir eða skráð sig í bakvarðarsveit meðfram rannsóknartengdu námi í faraldrinum.  „Það er enginn möguleiki á því að þessi tími komi aftur, tíminn þegar við erum að útskrifast með B.S. í læknisfræði eftir mikla vinnu.“ Það sé því ansi hár reikningur sem verið sé að senda þeim, að lána ferðaskrifstofu peningana þeirra fyrir ferð sem aldrei var farin og verði aldrei farin.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi