
25 stoppistöðvar í fyrsta áfanga Borgarlínu
Mbl.is greindi fyrst frá. Borgarlínan er samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins. Hún á að verða hryggjarstykkið í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og er kerfi hraðvagna. Fyrsti áfangi nær frá Árúnshöfða að Hamraborg. Stoppistöðvarnar í honum verða, samkvæmt þessum fyrstu tillögum; Höfði, Elliðavogur, Vogabyggð, Mörkin, Skeifan, Höllin, Lágmúli, Hátún, Katrínartún, Hlemmur, Frakkastígur, Smiðjustígur, Lækjartorg, Tjörnin, Háskóli Íslands eða Askja, Landspítalinn við Hringbraut, Hlíðarendi, Öskjuhlíð, Háskólinn í Reykjavík, Kársnes, Stelluróló, Rútstún og Hamraborg.
Áætla að hafa ferðir á 5 til 7 mínútna fresti
Vögnunum verður ekið eftir sérakreinum og fá þeir forgang á umferðarljósum, að því er segir í mats- og verklýsingu aðalskipulagsbreytinga í Kópavogi og Reykjavík síðan í febrúar. Áætlað er að ferðir verði á fimm til sjö mínútna fresti. Þar sem þörf krefur verður hægt að hafa ferðir á tveggja mínúna fresti. Áætlað er að biðstöðvarnar verði yfirbyggðar, með farmiðasjálfsölum og upplýsingaskiltum sem sýna í rauntíma hvenær næsti vagn er væntanlegur. Aðgengi á að vera fyrir alla, vagnarnir verða stöðvaðir þétt upp við brautarpalla sem verða í sömu hæð og gólf vagnanna, segir í verklýsingunni.
Breyta leiðum Strætó vegna Borgarlínu
Samhliða undirbúningi Borgarlínu er unnið að breytingum á leiðum Strætó á höfuðborgarsvæðinu með það í huga að tengja við Borgarlínu þau svæði höfuðborgarsvæðisins sem hún fer ekki um. Þá er einnig stefnt að því að leggja áherslu á uppbyggingu stíga fyrir gangandi og hjólandi.
Gert er ráð fyrir að fjarlægð milli stoppistöðva verði 600 til 1.000 metrar en að það verði styttra á milli þar sem byggð er þéttust.