Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Réttað yfir hælisleitendum fyrir stríðsglæpi

*** Local Caption *** 53114356
 Mynd: EPA
Tveir Sýrlendingar sem sóttu um pólitískt hæli í Þýskalandi mæta í réttarsal í Koblenz í dag. Þar svara þeir fyrir ákæru um stríðsglæpi fyrir hlutverk þeirra í pyntingum sýrlenskra stjórnvalda.

Þeir Anwar Raslan og Eyad al-Gharib flýðu borgarastríðið í Sýrlandi og sóttu um pólitískt hæli í Þýskalandi árin 2014 og 2015. Þeir unnu báðir fyrir sýrlensku leyniþjónustuna þegar átökin hófust. Leyniþjónustan handtók, pyntaði og drap mótmælendur og stjórnarandstæðinga. Báðir virðast þeir hafa vonast til þess að þeir þyrftu ekki að svara fyrir fortíð sína ef þeir flýðu land.

Yfirmaður hjá leyniþjónustunni

Raslan er nú 57 ára. Hann er ákærður fyrir glæpi gegn mannkyninu, nauðgun, gróft kynferðisofbeldi og 58 morð. Hann er talinn hafa haft umsjón með pyntingum minnst fjögur þúsund manna á árunum 2011 og 2012 í fangelsi leyniþjónustunnar í Damaskus. Málskjöl lýsa hryllilegum pyntingaraðferðum í fangelsinu. 

Safnaði mótmælendum saman

Al-Gharib var ekki jafn hátt settur. Hann er nú 42 ára. Hann er sakaður um að hafa safnað mótmælendum saman, og þannig aðstoðað við pyntingar og morð 30 manna. 

Sex Sýrlendingar sem voru pyntaðir í fangelsi leyniþjónustunnar hafa fengið leyfi til að bera vitni. Ferðahömlur vegna kórónuveirufaraldursins urðu þó til þess að aðeins þrír verða viðstaddir þegar réttarhöldin hefjast í dag. 

Óskaði verndar frá leyniþjónustu

Að sögn Guardian flúði Raslan frá Sýrlandi árið 2012 eftir að sveitir hliðhollar stjórn Bashars al-Assads frömdu fjöldamorð í heimabæ Raslans. Hann sótti um alþjóðlega vernd í Þýskalandi árið 2014. Hann reyndi ekki að fara huldu höfði á meðan hann dvaldi í flóttamannaskýli í Marienfelde í Berlín. Aðrir flóttamenn í skýlinu, þeirra á meðal stuðningsmenn stjórnarandstæðing og mannréttindalögmaður, báru kennsl á Raslan. Hann virtist ekki óttast þýsk yfirvöld. Hann leitaði til lögreglu í Berlín árið 2015 til þess að óska eftir vernd frá sýrlenskum og rússneskum leyniþjónustumönnum. Hann taldi þá hafa fylgt honum eftir til læknis nokkru fyrr. Hann var þó ekki handtekinn fyrr en í febrúar í fyrra vegna glæpa sinna.

Fyrst yfirheyrður sem vitni

Gharib veitti þýskum yfirvöldum einnig meiri upplýsingar en þau bjuggust við að fá. Hann sótti um pólitískt hæli í Þýskalandi árið 2018. Í umsókninni greindi hann yfirvöldum frá því að hann hafi aðstoðað við að safna mótmælendum saman, sem voru svo fluttir áfram í fangelsi leyniþjónustunnar í Damaskus. Hann kvaðst hafa yfirgefið leyniþjónustuna í ársbyrjun 2012 eftir að hann var beðinn um að drepa almenna borgara. Eins létu þrír félaga hans lífið í átökum nærri Damaskus. Þekking hans á störfum leyniþjónustunnar leiddi til frekari yfirheyrslu. Í fyrstu var hann fenginn sem vitni, en fékk síðar réttarstöðu grunaðs manns eftir að hann greindi nákvæmlega frá pyntingaraðferðum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV