Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Óhjákvæmilegt að það verði mikið um uppsagnir“

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Forstjóri Icelandair segir að félagið þurfi að grípa til sársaukafullra aðgerða um næstu mánaðamót til að bregðast við tekjuhruni vegna kórónuveirufaraldursins. Niðurskurðinn sé sá umfangsmesti sem félagið hafi þurft að ráðast í. Hann vonast til að geta ráðið sem flesta að nýju þegar markaðurinn tekur við sér, en gerir þó ekki ráð fyrir miklu áætlunarflugi í sumar.

Þetta er annað sinn á stuttum tíma sem Icelandair boðar uppsagnir vegna faraldursins. Tvöhundruð og fjörutíu manns var sagt upp í síðasta mánuði og starfshlutfall níutíu og tveggja prósenta starfsmanna var skert tímabundið.

„Við erum í dag að fljúga um 5% af okkar flugáætlun og við vitum ekki hversu lengi þetta ástand varir, hvort þetta verði þrír, sex eða níu mánuðir,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. „Þannig að við erum bara að búa okkur undir þetta óvissutímabil og þennan mikla tekjubrest sem við þurfum að bregðast við með því að lækka kostnaðinn til að komast í gegnum þetta og vera í sterkri stöðu þegar eftirspurnin fer að vakna aftur.“ 

Stjórnendur fyrirtækisins hafa fundað með trúnaðarmönnum og fulltrúum stéttarfélaga vegna þeirra uppsagna sem nú eru fyrirhugaðar.

„Það er óhjákvæmilegt að það verði mikið um uppsagnir.“

Hversu margar?

„Það liggur ekki fyrir á þessu stigi en því miður verða það talsvert margir eins og við erum að horfa á þetta núna. En við vonumst að sjálfsögðu til þess að geta ráðið sem flesta aftur þegar eftirspurnin fer að taka við sér aftur og við förum að fljúga aftur.“

Þá segir Bogi að uppsagnirnar nái til allra sviða fyrirtækisins.

„Sársaukafullar aðgerðir“

Í aðdraganda bankahrunsins árið 2008 var um fimm hundruð starfsmönnum Icelandair sagt upp störfum. Bogi segir að niðurskurðurinn nú sé sá umfangsmesti sem fyrirtækið hafi þurft að ráðast í.

„Já ég held að þetta verði að þeirri stærðargráðu núna. En eins og ég sagði áðan þá vonast ég svo sannarlega til þess að við getum ráðið sem flesta sem allra fyrst þegar markaðurinn tekur við sér aftur.“

Bogi segir að aðgerðirnar verði kynntar í næstu viku.

„Þetta eru mjög sársaukafullar aðgerðir enda starfar hjá okkur alveg frábært starfsfólk. Margir með mikla starfsreynslu sem hafa starfað mjög vel og lengi hjá fyrirtækinu. Og frábært starfsfólk, þannig að þetta er mjög sársaukafullt og erfitt.“

Vond óvissa

Hvað með flugflotann, þið eigið margar vélar, ætlið þið að reyna að losa ykkur við einhverjar vélar?

„Nei ekki á þessu stigi. Við höfum fulla trú á því að markaðurinn taki við sér aftur og að Ísland sem áfangastaður hafi mikil tækifæri til framtíðar og að tengimiðstöðin hér í Keflavík, á milli Norður-Ameríku og Evrópu, hafi mikil tækifæri þegar óvissunni lýkur. Það er okkar mat. Þannig að við ætlum að nota okkar flota í framtíðinni og ætlum að komast sterk í gegnum þetta og grípa tækifærin þegar óvissunni lýkur.“

Hvernig er útlitið fyrir sumarið, sérðu fyrir þér að það verði eitthvað áætlunarflug í sumar?

„Það verður, eins og við erum að horfa á það núna, mjög lítið væntanlega. Það sem er svo vont í þessari stöðu er hvað óvissan er mikil. Það er mjög erfitt að gera áætlanir. Við vitum ekki hvernig eftirspurnin mun þróast en við erum að búa okkur undir að það verði mjög lítið flug í sumar,“ segir Bogi. Horfa má á viðtalið við hann í heild sinni í spilaranum hér að ofan.