Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Mér fannst ég geta hoppað út um glugga og flogið“

Mynd: RÚV / RÚV

„Mér fannst ég geta hoppað út um glugga og flogið“

23.04.2020 - 08:31

Höfundar

„Hann sagði að ég væri skáld. Fram að því hafði ég aldrei þorað að segja það upphátt,“ segir Jón Kalman Stefánsson sem minnist bréfs sem hann fékk sent frá afabróður sínum, Hannesi Sigfússyni, sem kvaðst hrifinn af skrifum frænda síns. Ljóðabækur Jóns Kalmans eru nú endurútgefnar í ljóðasafni.

Jón Kalman hefur á farsælum ferli gefið út tólf skáldsögur, þrjár ljóðabækur og smásögusafn. Ljóðabækurnar hans, Með byssuleyfi á eilífðinaÚr þotuhreyflum guða og Hún spurði hvað ég tæki með mér á eyðieyju hafa nú verið endurútgefnar í einu ljóðasafni sem ber yfirskriftina: Þetta voru bestu ár ævi minnar, enda man ég ekkert eftir þeim. Ljóðabækurnar voru fyrstu bækurnar sem skáldið gaf út og komu þær út á fimm ára tímabili á árunum 1988-1993. Bergsteinn Sigurðsson ræddi við höfundinn í Kiljunni um sterka köllun ljóðsins sem fljótlega gerði vart við sig en hefur þó vikið fyrir prósanum um árabil. 

Tók ákvörðun um að tengjast engum og stóð við það

Jón Kalman var eins og margir ungir menn leitandi framan af. Hann gerðist farandverkamaður eftir grunnskóla, fór í framhaldsskóla til að verða stjörnufræðingur en fékk uppljómun í íslenskutíma í Keflavík og hefur ekki litið um öxl síðan. „Baldur Sigurðsson kenndi mér og við áttum að skrifa smásögu. Þá gerðist eitthvað. Það var eins og ég hitti sjálfan mig í fyrsta sinn og eftir það var ekki aftur snúið," rifjar höfundurinn upp. En fyrstu skrefin voru flókin. Hann var nokkuð einangraður í samfélaginu í Keflavík, átti fáa vini og engan til að ræða við um skáldskapinn. „Ég flutti tólf ára til Keflavíkur og var ósáttur við það. Ég tók þá ákvörðun að tengjast engum og nánast því miður stóð við það.“ Til að kynnast skáldskapnum betur fór hann því einsamall og ráðalaus á bókasafnið í Keflavík og valdi bækur til að lesa eftir titlum og bókarkápum.

„Lengstu og erfiðustu tvær vikur sem ég hef lifað“

Jón Kalman var svo heppinn að í fjölskyldu hans var maður sem sem hann gat spurt ráða og rætt við um ljóðlistina. Afabróðir hans var nefnilega skáldið Hannes Sigfússon, sem reyndist mikill örlagavaldur í lífi Jóns þó að þeir byggju ekki í sama landi. Jón las bækur afabróðurins og heillaðist mjög. Það var í gegnum hann sem Jón áttaði sig á því að fleiri sæju í honum hæfileikann sem hann var sjálfur sannfærður um að hann byggi yfir. „Ég fór að lesa hann og heillaðist strax. Hann var sá eini sem ég gat leitað til en ég gat aldrei hitt hann. Hann bjó í Noregi og ég var dauðhræddur við að nálgast hann. Hefði líklega aldrei þorað að heimsækja hann ef hann hefði búið hérna heima.“ Ljóðskáldið unga tók því upp á að senda afabróður sínum bréf yfir hafið og fékk svo leyfi til að senda honum ljóðasyrpu til að lesa og segja sína skoðun á. Biðin eftir hinum mikla dómi ljóðskáldsins í Noregi Jón Kalman að hafi verið tvær lengstu og erfiðustu vikur sem hann hafi upplifað.

Þegar svarið loks barst varð hann svo glaður að honum fannst sem hann væri fleygur. „Hann sagði að ég væri skáld. Fram að því hafði ég aldrei þorað að segja það upphátt. Mér fannst ég geta allt, mér fannst ég geta hoppað út um glugga á fimmtu hæð og flogið.“

Fannst of sjálfhverft að biðja fólk að kaupa

Hann ákvað því að kýla á að gefa út fyrstu ljóðabókina sína sjálfur eins og var mikið í tísku á níunda áratugnum. „Það var tíðarandinn. Það fóru sögur af Einari Má og Birgi Svan Símonarsyni sem gengu um barina og kaffihúsin og seldu grimmt. Af sögunum að dæma hélt maður að þetta væri auðvelt,“ rifjar hann upp. Það reyndist honum hins vegar ekki eins auðvelt og hann hafði vonað, að sannfæra fólk um að kaupa ljóðin sín. „Þegar ég var búinn að sækja bækurnar, sannfærður um að þær myndu breyta heiminum, þá þegar ég ætlaði að selja gat ég það ekki. Ég gat ekki gengið upp að ókunnugri manneskju og beðið hana að kaupa bókina. Mér fannst það svo mikil sjálfhverfa og mér fannst ég vera að fara fram á að manneskjan hefði nógu mikinn áhuga á mér til að kaupa,“ segir hann. „Ég gat ekki gert þá kröfu að einhver hefði áhuga á mér. Fyrir mér var þetta sami hluturinn, sálarlíf mitt, minningar, ég sjálfur og bókin.“

„Lífið tuktaði mig til“

Bókin seldist illa þótt hún fengi jákvæða dóma í blöðunum enda „seljast ljóð sjaldan vel. Og ef maður er ekki duglegur að hafa sig í frammi og þekkir engan, hefur enga kreðsu í kringum sig, er ekki hægt að ætla að mjóslegið kver eftir fullkomlega óþekktan höfund seljist í bílförmum. En ég var sannfærður um það þegar ég gaf bókina út að hún myndi rjúka út,“ segir hann kíminn. „Ég var líka sannfærður um að ég myndi sjá borgarlífið breytast þó ég vissi ekki hvernig sko. En lífið tuktaði mig til."

„Vona að ljóðið sé búið að fyrirgefa mér“

Mikið vatn hefur sannarlega runnið til sjávar síðan Jón Kalman var feimið ljóðskáld sem þorði ekki að sannfæra fólk um að kaupa bókina sína, sem hann var þó sannfærður um að myndi breyta heiminum. Þrjár af bókum hans hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2005 og  bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana 2017. Þegar hann lítur til baka og les aftur ljóðin segist hann verða aðeins vandræðalegur og hann fer hjá sér en finnur líka fyrir væntumþykju. „Í nokkur ár gat ég ekki hugsað mér að opna þessar bækur. En ég hef lært að fyrirgefa sjálfum mér gallana og er orðinn sáttur við þennan unga mann sem gaf út þessar bækur.“

Þótt hann hafi lagt ljóðlistina á hilluna og einbeitt sér að skáldsögum um árabil hefur hann alltaf fundið fyrir ljóðunum krauma innra með sér um árabil. Á síðasta ári fóru þau skyndilega aftur að streyma frá honum. „Það opnaðist allt í einu æð og ég varð voðalega glaður,“ segir hann. „Ég var skelfingu lostinn og hélt hún myndi lokast aftur en ég vona að ljóðið sé búið að fyrirgefa mér og komið aftur til mín.“

Rætt var við Jón Kalman Stefánsson í Kiljunni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Menn ráða ekki við ástina á sauðkindinni“

Bókmenntir

Börnin lærðu að vinna og drekka kaffi í sveitinni

Bókmenntir

Jón Kalman tilnefndur til franskra verðlauna