Á þessum degi: Magnús Scheving fær silfur á HM

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Á þessum degi: Magnús Scheving fær silfur á HM

23.04.2020 - 14:37
Keppnisíþróttir víðsvegar um heiminn og hér á landi liggja niðri næstu vikur vegna COVID-19-faraldursins. Þar sem fátt er um að vera í heimi íþróttanna ætlar íþróttadeild RÚV líta um öxl. Dagurinn í dag er 23. apríl.

Magnús Scheving vann á þessum degi til silfurverðlauna á heimsmeistaramótinu í þolfimi. Mótið fór fram í Japan og háði Magnús harða keppni við heimamanninn Kenichiro Momura, sem hafði á endanum betur.

„Hann var mjög góður, betri en ég, held ég, en það kom mér á óvart hve langt við tveir vorum fyrir ofan hina. En ég get ekki annað en verið ánægður með silfrið,“ sagði Magnús við Morgunblaðið að keppni lokinni.

Magnús var þarna Evrópumeistari karla í þolfimi en íþróttin naut talsverðra vinsælda á Íslandi á þessum árum. Fjármál íþróttafólks voru þó hin sömu á þessum árum. Lítinn pening var að hafa og harkið mikið.

„Yfirdómarinn, sem var Japani sagði við mig að minn tími kæmi næsta ár, en það verður ekki. Ég ætla að hætta að keppa; hef hreinlega ekki efni á þessu lengur. Þetta hefur verið erfitt peningalega, en ég vil þó fá að taka fram að ákveðin fyrirtæki heima hafa stutt mig. Ég vil fá að þakka sérstaklega fyrir það,“ sagði Magnús við Morgunblaðið.

Í kjölfar árangursins á árinu 1994; silfur á HM og Evrópumeistaratitils, var Magnús kjörinn Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna.

Messi fagnar eftirminnilega

23. apríl 2017 mættust Real Madrid og Barcelona á Santiago Bernabeu vellinum í Madrid. Barcelona vann leikinn 3-2 og skoraði Lionel Messi sigurmarkið á 2. mínútu uppbótartíma. Til að fagna markinu fór hann úr treyjunni sinni og sýndi stuðningsmönnum Madridarliðsins númerið og nafnið.

Fagnið fór eins og eldur í sinu um netheima og hefur verið vinsælt meme alla tíð síðan.

epa05924566 FC Barcelona's Argentinian striker Lionel Messi jubilates the 3-2-victory against Real Madrid during the Liga Primera Division 33rd round match between Real Madrid and FC Barcelona at the Santiago Bernabeu stadium in Madrid, Spain, 23 April 2017.  EPA/Juan Carlos Hidalgo
 Mynd: EPA

 

Shane Long setti met

Fyrir sléttu ári síðan skoraði Shane Long fyrir Southampton gegn Watford í ensku úrvalsdeildinni eftir aðeins 7,69 sekúndur. Enginn hefur verið fljótari að skora í leik úrvalsdeildarinnar. Metið er enn athyglisverðara fyrir þær sakir að Southampton byrjaði alls ekki með boltann.

Fyrra metið átti Ledley King og hafði það staðið í 19 ár, 9,82 sekúndur.