Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spáir því að sumarið verði í kaldara lagi

22.04.2020 - 08:44
Mynd: Shutterstock / Shutterstock
Þau eru eflaust mörg sem er farið að þyrsta í logn og sólskin eftir veturinn, sem einkenndist af gulum, appelsínugulum og jafvel rauðum veðurviðvörunum. Sumardagurinn fyrsti er á morgun og hafa síðustu dagar verið nokkuð mildir. Það er þó ekki útlit fyrir að sumarið í ár verði hlýrra en að meðallagi, að sögn Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings.

Eins og oft áður er frekar kaldur sjór við landið, sérstaklega sunnan og suðvestan við land. Þessi kaldi blettur er orðinn viðvarandi og stýrir að einhverju leyti hitafari yfir tímabilið maí til júní, að sögn Einars.
 

Mynd með færslu
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur.  Mynd: RÚV

„Spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar, sem maður horfir gjarnan til fyrir maí til júlí, það má lesa úr henni að það verði frekar ólíklegt að það verði markvert hlýrra heilt yfir á landinu en að meðallagi. Það eru heldur meiri líkur, en hitt, að það verði ívið kaldara. Þetta segir ekkert um skiptingu innan tímabilsins sem er langt og fjölbreytt, heldur um meðalloftslagið,“ sagði Einar í Morgunþætti Rásar 1 og Rásar 2 í morgun.  

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir