Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lífeyrissjóðir lækka mat á virði hlutafjár í PCC Bakka

22.04.2020 - 06:36
Mynd með færslu
 Mynd: Gaukur Hjartarson
Lífeyrissjóðir og Íslandsbanki hafa fært niður virði hlutafjár í kísilverinu á Bakka við Húsavík vegna óvissu um starfsemina og erfiðrar stöðu á mörkuðum. Þetta kemur fram í Markaðnum í Fréttablaðinu í dag. 

Þar segir að fimm íslenskir lífeyrissjóðir; Gildi, Stapi, Birta Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Almenni lífeyrissjóðurinn, sem fari með meirihluta hlutafjár í Bakkastakka, hafi lækkað mat á virði hlutafjár um 75 til 100 prósent. Bakkastakki er félag sem heldur utan um fjárfestingu þeirra í kísilverinu. Í frétt Markaðarins segir að Íslandsbanki hafi fært sína eign töluvert niður, en að ekki hafi fengist upplýsingar um það hve mikil lækkunin var. 

Lífeyrissjóðirnir fimm og Íslandsbanki lögðu til tæpa tvo og hálfan milljarð í hlutafé á sínum tíma en hafa nú fært það niður um samtals tvo milljarða. Þetta er gert vegna erfiðra aðstæðna sem hafa verið á hrávörumarkaði síðan hafin var starfsemi í verksmiðjunni árið 2018, að því er segir í fréttinni.