Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Finnst Megasi ekki hafa verið umbunað nóg

Mynd: SAJ / Sigtryggur Ari Jóhannsson

Finnst Megasi ekki hafa verið umbunað nóg

22.04.2020 - 10:00

Höfundar

„Magnús er kannski flinkastur í að láta manni bregða. Hann nær að stinga litlum spjótum, hvort sem það er í barns- eða fullorðinnssálina,“ segir Margrét Kristín Blöndal söngkona um Megas vin sinn. Fyrr á árinu og flutti hún lög og ljóð hans ásamt einvala liði tónlistarfólks í Eldborg.

Hljóðritun frá tónleikum Möggu Stínu var á Rás 1 um páskana og má hlýða á alla tónleikana hér í spilara RÚV. Hljómsveit hennar á tónleikunum skipuðu Matthías Hemstock, Jakob Smári Magnússon, Daníel Friðrik Böðvarsson og Tómas Jónsson. Sérstakir gestir voru skáldkonan Didda, Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari og sítarleikarinn Björgvin Gíslason. Sjálf segir Margrét samstarfið í aðdraganda tónleikanna einna helst líkjast „ástarsambandi við margar manneskjur samtímis. Þetta eru manneskjur sem gefa af sér eitthvað alveg sérstakt. Það fór alveg gjörsamlega kristaltært í gegnum hjartastöðina á mér hverjir það yrðu sem kæmu að þessu.“

Hún hefur síðustu ár haldið heiðri Megasar á lofti, flestum fremur, með því að færa lög hans í nýjan búning, syngja þau á tónleikum og gefa út á plötu. Enda hefur Megas frá barnsaldri verið í miklum metum hjá henni og tónlist hans og ljóð hreyfa samkvæmt henni við hjartastrengjunum á óvæntan hátt. Hún ræddi við Pétur Grétarsson í Hátalarnum um glímuna við tónlist söngvaskáldsins og eitt og annað sem skiptir máli þegar kemur að því að vera manneskja.

„Ég er sannfærð um hvar ég vil vera“

Síðustu næturnar fram að stórtónleikunum sjálfum svaf Margrét lítið sem ekkert því þrátt fyrir að hafa verið starfandi tónlistarkona um árabil hættir Margrét ekki að finna fyrir óbærilegu stressi þegar líður að því því að stíga á svið. „Það er hluti af þessari sjálfspíningu. Maður skilur ekki afhverju maður er að leggja stund á þetta. Taugarnar eru alveg þandar til hins ítrasta," segir hún og hlær. En stressið veitir henni líka innblástur og ferlið sjálft var að þessu sinni stórkostlegt samkvæmt söngkonunni. „Að mynda þetta samband við tónlist, það er ekkert æðra því í mínu lífi. Á einhvern dásamlegan hátt er ég sannfærð um hvar ég vil vera. Ég var sannfærð um það áður en vildi ekki hlýða. Þetta er æfing í að hlýða innsæinu,“ enda segist hún nú hafa svigrúm til að sinna köllun sinni. 

Borgaralaun besta lausnin

Því á þessu ári hefur Margréti tekist betur að finna tíma og rúm í sínu lífi til að semja tónlist en áður, og segir hún glettin að það megi helst þakka því að sköpunin sé ekki kreist úr „taugaveiklaðri manneskju sem er alltaf að hugsa um leiguna og hvort Lánasjóður íslenskra námsmanna sé í hönki eða ekki.“ Og það sé verkefni samfélagsins að gera öllum kleift að hlýða sínu eigin innsæi og sinna sinni persónulegu köllun í lífinu, samfélaginu öllu til heilla. Til að það sé mögulegt er hún sannfærð um að borgaralaun sé besta lausnin. „Þau eru það eina rétta því þá virkjarðu krafta hvers og eins til að gera það sem hann er hæfastur í. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þá fer allt vel.“

Það fer nefnilega betur að umbuna þeim sem gefa af sjálfum sér og fara sínar eigin leiðir, að hennar mati. „Ef þú horfir á manneskju til dæmis eins og Megas. Hann hefur gefið okkur meira en margur, svo ég orði það kurteislega, bæði í tónlist og ljóðlist en aldrei verið umbunað fyrir það með veraldlegum hætti. Það er skandall í sjálfu sér en það er okkar skandall. Hann hefur hins vegar aldrei efast, það er hans gjöf og okkar um leið.“ Eftir langan feril var Megasi þó umbunað með heiðurslaunum frá Alþingi sem hann hefur hlotið síðan árið 2003.

„Honum hlýtur að vera illa við mig“

En glíman við lög hans er ekki alltaf jafn ljúf, að sögn Margrétar því sem lagasmiður ræðst Megas alls ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Laglínurnar eru oft erfiðar að syngja og hún viðurkennir að hafa stundum hrópað yfir sig á meðan á æfingum stóð: „Honum hlýtur að vera illa við mig!“ 

Þrátt fyrir stundarbrjálæðið segist hún fegin því að hann gefi engan afslátt í tónsmíðunum. „Hann semur þetta fyrir sjálfan sig og hefur sungið sjálfur á þennan ómótstæðilega hátt,“ segir hún en viðurkennir að sjálf myndi hún fara aðra leið og auðveldari leið ef hún væri að semja lög fyrir sjálfa sig að flytja. Ég hugsa oft já, ég myndi sjálf velja mér laglínur sem ég vissi að ég gæti skilað. En hann ákveður að vera þjónn laglínunnar frekar en að laglínan verði þjónn hans.“

Pétur Grétarsson ræddi við Möggu Stínu í Hátalaranum.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Sálræn vændisþjónusta“ fyrir grátþurfa fólk