Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Daði vinnur söngvakeppni Austurríkis

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Daði vinnur söngvakeppni Austurríkis

22.04.2020 - 09:27

Höfundar

„Norrænu nördarnir frá Íslandi“ fóru með sigur af hólmi í sárabótasöngvakeppni Austurríkismanna með tæplega helming atkvæða.

Ísland hefði unnið Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2020 – ef hún hefði farið fram og ef einungis Austurríki hefði valið sigurlagið, segir á vef austurríska ríkisútvarpsins, ORF.

Í úrslitum Litlu söngvakeppninnar eins og Austurríkismenn kölluðu keppnina, sem var haldin til sárabóta um liðna helgi eftir að aðalkeppninni var aflýst vegna COVID-19, börðust lög Íslands, Möltu og Austurríkis um sigursætið. 

Mynd með færslu
 Mynd: ORF
Daði kampakátur með gott gengi í útsendingu Austurríkismanna.

Þrátt fyrir að Austurríkismenn tefldu fram sínu eigin lagi í keppninni báru „norrænu nördarnir frá Íslandi“ eins og segir í frétt ORF, sigur úr býtum með 48 prósentum atkvæða. 

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hefði átt að fara fram 16. maí í Rotterdam í Hollandi. Sérstakur Eurovision-þáttur verður þó í beinni útsendingu frá Hollandi þann dag en margar þjóðir hafa brugðið á það ráð að halda sína eigin sjónvarpsútsendingu og útnefna sigurvegara líkt og Austurríkismenn.

RÚV verður með sambærilega útsendingu 14. maí. Upptakturinn hófst um helgina með Alla leið, sjónvarpsþættinum gamalkunna, og býðst Íslendingum að velja sigurlag í kosningu á vef RÚV 2. maí.

Tengdar fréttir

Popptónlist

„Hélt ég yrði ekki eldri þegar ég sá þennan kjól“

Popptónlist

Kosning um besta lagið á RÚV.is