Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Yfir 50 þúsund á atvinnuleysisskrá að fullu eða hluta

Mynd með færslu
 Mynd: Matthew Henry - Burst
Rúmlega 50 þúsund manns fá greiddar atvinnuleysistryggingar eða að hluta á móti skertu starfshlutfalli um þessar mundir. Í tilkynningu frá Vinnumálastofnun kemur fram að aldrei hafi fleiri verið í þjónustu hjá stofnuninni og því óhjákvæmilegt að afgreiðslutími hafi lengst. Allt kapp sé lagt á að afgreiða umsóknir og koma þeim í greiðsluferli.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar ræddi stöðuna í Morgunþætti RÚV í gærmorgun og sagði vonir standa til að það fari að draga úr atvinnuleysi strax í maí með rýmkun á samkomubanni.

Um það bil 14.200 voru á atvinnuleysisskrá í lok mars og hefur fjöldinn því aukist hratt á skömmum tíma vegna farsóttarinnar. Fyrirtæki hafa dregið úr starfsemi og nýtt sér hlutabótaleiðina. Hún gerir þeim kleift að halda áfram ráðningarsambandi við starfsfólk sitt sem fær atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli.

Í tilkynningu frá Vinnumálastofnun kemur fram að 33.800 umsóknir um atvinnuleysistryggingar samhliða minnkuðu starfshlutfalli hafi borist síðan opnað var fyrir þær umsóknir 25. mars.

Nýjar umsóknir um fullar atvinnuleysisbætur séu um 2.200 það sem af er apríl. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV