Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þrjú meint brot á samkomubanni til rannsóknar

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Lögreglan hefur til rannsóknar þrjú meint brot á samkomubanni. Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns, á upplýsingafundi almannavarna sem hófst klukkan tvö. Víðir vildi ekki svara því hvers eðlis meint brot eru. Hann sagði að búið væri að ljúka einu slíku máli með sektargreiðslu.

Alma Möller, landlæknir, sagði á fundinum að af þeim fimm sem greindust með kórónuveirusmit síðasta sólarhringinn hafi þrír verið á höfuðborgarsvæðinu, einn á Vesturlandi og einn á Suðurlandi.

Alma sagði að kórónuveirufaraldurinn sé enn í niðursveiflu, en virkum smitum heldur áfram að fækka. Hún sagði að sveiflur séu hins vegar á milli daga í fjölda greininga og að áfram megi búast við að smit greinist.

Þá sagði hún mikilvægt að hafa auga með því hvort hópsýkingar brjótist út, enda hafi þær verið mjög krefjandi, sérstaklega á landsbyggðinni. Heilbrigðisráðherra hefur staðfest tillögu sóttvarnalæknis um að aflétta takmörkunum á valkvæðar aðgerðir, að sögn Ölmu, enda sé álagið á heilbrigðiskerfið að minnka.

Óvenju fámennt var á upplýsingafundinum í dag, en þar voru aðeins þau Alma Möller landlæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Þá var fundurinn einnig í styttra lagi. Víðir sagði að haldið verði áfram með daglega upplýsingafundi að minnsta kosti til 4. maí.

Fréttin hefur verið uppfærð.