Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja næsta áratug skipta sköpum fyrir fjölmiðlafrelsi

21.04.2020 - 10:56
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Ísland hefur fallið um eitt sæti á lista samtakanna Blaðamenn án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi. Samtökin segja að næsti áratugur skipti sköpum um framtíð fjölmiðlafrelsis í heiminum. Noregur, Finnland, Danmörk og Svíþjóð skipa fjögur efstu sætin á listanum yfir fjölmiðlafrelsi. Holland, Jamaíka og Kosta Ríka koma næst. Ísland er í fimmtánda sæti, lækkar um eitt sæti og einkunnin versnar milli ára.

Í umsögn samtakanna um Ísland segir að kveðið sé á um algjört málfrelsi í stjórnarskrá  og vísað til samþykktar Alþingis árið 2010 um að tryggja fjölmiðlafrelsi, meðal annars með vernd uppljóstrara og gagnsæi. Þó hafi samskipti fjölmiðla og stjórnmálamanna versnað á síðustu árum. Ísland var í níunda sæti árið 2013 og áttunda sæti ári síðar. Lægst fór það í 21. sæti 2015 og nítjánda sæti árið 2016.

Í umsögn Reporters Without Borders segir að næsti áratugur skipti sköpum um framtíð fjölmiðlunar. COVID-19 faraldurinn er sagður magna þann vanda sem fjölmiðlar hafi staðið frammi fyrir við að miðla með sjálfstæðum og frjálsum hætti fjölbreyttum og áreiðanlegum upplýsingum. Meðal ógna sem fjölmiðlar standa frammi fyrir eru tilhneigingar einráðra stjórnvalda til að veitast að fjölmiðlum, pólitísk átök og sundurlyndi í samfélögum og efnahagslegur vandi sem dregur úr möguleikum til að stunda faglega fjölmiðlun.

Stafli af dagblöðum.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock

Í tilkynningu á vef samtakanna segir Christophe Deloire, framkvæmdastjóri Reporters Without Borders, að aðgerðir og aðstæður í dag móti það hvernig fjölmiðlafrelsi heimurinn býr við árið 2030.

Fjölmiðlafrelsi er mest í Noregi fjórða árið í röð. Svíþjóð og Holland falla um eitt sæti hvort land vegna rafrænna árása á blaðamenn. Ýmis ríki falla á listanum vegna þöggunartilburða í tengslum við COVID-19 faraldurinn. Þeirra á meðal eru Íran, Írak og Ungverjaland. Kína er í 177. sæti af 180 og er meðal annars vísað til þöggunar vegna COVID-19 faraldursins.