Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kröfur upp á milljónir sem ekki fást endurgreiddar

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
„Ferðaskrifstofur og flugfélög búa vissulega við lausafjárskort en það það sama á við um fjölmarga neytendur sem hafa misst vinnuna eða eru í skertu starfshlutfalli. Að velta vanda eins yfir á aðra leysir ekkert,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.

Stjórn Neytendasamtakanna sendi í kvöld frá sér ályktun þar sem segir að ekki sé boðlegt að ríkisstjórnin hyggist koma til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum. Segir stjórnin að inneignarnótur í gjaldþrota fyrirtækjum séu einskis virði.

Að varpa vandanum yfir á aðra leysir ekkert

Breki segist hafa verið hissa að sjá þessa tillögu ríkisstjórnarinnar. Neytendasamtökin hafi ítrekað bent á aðgerðir danskra yfirvalda þar sem ferðaþjónustufyrirtækin fengu lán frá ríkinu til að endurgreiða neytendum vegna ferða sem var aflýst vegna Covid-19. Fyrirtækin hafa síðan tíu ár til að greiða lánið til baka. 

„Fjölmargir neytendur hafa líka orðið fyrir fjárhagslegu áfalli og búa við lausafjárskort. Svona er verið að varpa lausafjárvanda ferðaskrifstofa yfir á neytendur og það er vitlaus nálgun. Að varpa vandanum yfir á aðra leysir ekkert,“ segir Breki.

Fjölmargar kröfur á borði samtakanna

Að sögn Breka hafa Neytendasamtökin fengið tugi mála inn á borð til sín á síðustu dögum þar sem fólk hefur ekki fengið endurgreitt frá ferðaskrifstofum. Raunar hafi aldrei jafn margir leitað til samtakanna og nú. Málin eru misstór en hlaupa í einhverjum tilfellum á milljónum króna.

„Þessar kröfur eru mjög misjafnar en þær geta hlaupið á hundruð þúsunda og vel yfir milljón í mörgum tilfellum. Þá hefur öll stórfjölskyldan til dæmis verið að fara saman í ferðalag. Eitt af stóru málunum sem við höfum fengið inn á borð til okkar snýr að 200 manna útskriftarferð menntskælinga, þar sem búið var að greiða ferðaskrifstofu tugi milljóna sem ekki hefur tekist að fá greiddar til baka.“

Að sögn Breka munu Neytendasamtökin beita sér fyrir því að lagabreytingin verði ekki að veruleika. Að hans mati eiga neytendur skýlausan rétt á endurgreiðslu. Ekki sé hægt að breyta lögunum eftir á.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV