Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flugfélagið Virgin Australia að þrotum komið

21.04.2020 - 01:44
epa08374389 A view of grounded Virgin Australia planes at Tullamarine Airport in Melbourne, Australia, 21 April 2020. Virgin Australia has gone into voluntary administration following financial pressure due to the impact of the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/JAMES ROSS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Stjórn flugfélagsins Virgin Australia, næst-stærsta flugfélags Ástralíu á eftir Quantas, tilkynnti í dag að hún hefði farið fram á greiðslustöðvun og hygðist leita nauðasamninga við lánardrottna sinna. Er þetta stærsta flugfélagið sem hefur kiknað undan COVID-19 faraldrinum og hruninu sem hann veldur í ferðaþjónustu heimsins.

Í tilkynningu til áströlsku kauphallarinnar segist stjórn félagsins stefna að því að halda áfram að fljúga, þótt stjórnartaumarnir verði settir í hendur skiptaráðanda um sinn. „Ákvörðun okkar er tekin með það fyrir augum að tryggja framtíð Virgin Australia Group og að félagið nái flugi á ný eftir COVID-19 kreppuna," segir forstjórinn, Paul Scurrah, í tilkynningunni. „Ástralía þarf á öðru stóru flugfélagi að halda og við erum ákveðin í að halda áfram að fljúga."

Félagið var verulega skuldsett áður en kreppan skall á. Í frétt AFP segir að skuldir þess hafi numið um 5 milljörðum Ástralíudala, um 460 milljörðum króna. Forsvarsmenn þess hafi leitað eftir ríkistryggðu láni upp á 1,4 milljarða dala, 130 milljarða króna, til að halda sér á floti, en ríkisstjórnin hafi synjað þeirri beiðni, mögulega vegna þess að félagið er í meirihlutaeigu annarra en Ástrala.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV