Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fíkniefnabrotum fækkar - heimilisofbeldi eykst

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað miðað við sama tíma í fyrra, en fíkniefnabrotum hefur hins vegar fækkað það sem af ári. Sviðsstjóri hjá lögreglunni segir of snemmt að draga ályktanir af áhrifum kórónuveirufaraldursins og samkomubanns á afbrot. 

59 fíkniefnabrot í apríl - 199 í apríl 2019

Ríkislögreglustjóri gaf í gær út bráðabirgðatölur um brot og verkefni lögreglunnar frá janúar til 20. apríl. 

„Í sumum flokkum er bara mjög lítil breyting og jafnvel að einhverju leyti erum við að sjá aukningu. En svo í öðrum málaflokkum og þá kannski sérstaklega brotum sem tengjast skemmtanalífinu að þar höfum við séð fækkun mála.“

segir Rannveig Þórisdóttir félagsfræðingur og sviðsstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Brot sem tengjast skemmtanalífi eru til dæmis fíkniefnabrot að einhverju leyti og akstur undir áhrifum áfengis og vímuefna.

Það sem af er apríl hafa einungis 59 fíkniefnabrot komið á borð lögreglu. Þau voru 199 allan apríl í fyrra. Fíkniefnabrot voru næstu helmingi færri í mars í ár en í fyrra. En reyndar voru brotin líka færri í janúar og febrúar í ár en í fyrra og þá mánuði var áhrifa kórónuveirunnar ekki farið að gæta. 

Heimilisofbeldi oft tilkynnt eftir á

Í janúar var tilkynnt um 80 heimilisofbeldisbrot, 73 í febrúar, 74 í mars og 63 1. til 20. apríl. Tilkynningar voru 73 allan apríl í fyrra. 

„Það sem við sjáum eins og á höfuðborgarsvæðinu það er fjölgun mála í ár miðað við sama tíma í fyrra en í rauninni er fjöldinn núna svipaður og var fyrir tveimur árum. Þannig að það er mjög erfitt að fara að túlka þessa fjölgun núna sem kannski tengt þessu ástandi sem við búum við. Það sem að kannski getur líka haft veruleg áhrif á tölfræðina núna er að mál eru stundum tilkynnt eftir á og þá kannski sérstaklega heimilisofbeldismál. Þannig að kannski gæti verið að eitthvað eigi eftir að skila sér kannski seinna þegar fólk fer að vera aftur meira og kannski treystir sér til að leita stuðning. Þetta eru svona bráðabirgðatölur og það er oft betra að lesa í þær þegar frá líður.“

Rannveig segir að þau sem telja á sér brotið geti látið vita í 112, hjálparsíma Rauða krossins 1717, á vef lögreglunnar logreglan.is er hægt að tilkynna brot rafrænt og líka óska eftir tíma hjá lögreglunni til að leggja fram kæru. Þá segir hún að Bjarkarhlíð sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis sé líka góður staður til að leita stuðnings og ráðgjafar.