Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki boðlegt að endurgreiða ferðir með inneignarnótum

Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn Neytendasamtakanna telur ekki boðlegt að ríkisstjórnin hyggist koma til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum.

Telja samtökin að þannig sé verið að velta lausafjárvanda fyrirtækja yfir á neytendur.

„Það er ekki í boði að heimilin axli ábyrgð á lausafjárvanda fyrirtækja og inneignarnótur í gjaldþrota fyrirtækjum eru einskis virði. Fjölmargir hafa misst viðurværi sitt og gera ráð fyrir að fá endurgreiðslu eins og lög gera ráð fyrir,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Telja að ríkið gæti orðið bótaskylt

Þar segir jafnframt að neytendur eigi skýlausan rétt á endurgreiðslum og að með þessum aðgerðum sé áhættunni velt yfir á neytendur. Ekki sé ólíklegt að með því að breyta lögunum afturvirkt geti ríkið orðið bótaskylt. 

Neytendasamtökin segjast margsinnist hafa bent á leiðir sem kæmu bæði fyrirtækjum og neytendum vel og furða sig á að ekki sé á þau hlustað. Sjaldan hafi verið eins mikilvægt að standa vörð um neytendavernd. Stjórnvöld ættu að tryggja réttindi neytenda í stað þess að leggja af réttindi sem þeir eiga.

 

 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV