Bjarni: Skiptir öllu máli að auka innlenda eftirspurn

Mynd: Skjáskot / RÚV
„Við teljum eðlilegt að á meðan að þetta tímabil varir þar sem mönnum er gert að loka að þá standi þeim til boða að fá styrk,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í viðtali við fréttastofu þegar hann útskýrði lokunarstyrkina.

„Við erum að ræða um 800 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann en þó að hámarki 2,4 milljónir sem mun skipa máli fyrir mjög mörg fyrirtæki sem hafa lent í þessari stöðu,“ sagði Bjarni.

Til viðbótar við þennan lokunarstyrk er í boði ný lánategund sem er sérstaklega sniðin að minni fyrirtækjum. „Þar er um að ræða 6 milljóna króna lán á sérstaklega hagstæðum vöxtum, á 1,75 prósent vöxtum sem eru vextir Seðlabankans. Lán sem er veitt til 30 mánaða og er alveg afborgunarlaust fyrstu 18 mánuðina. Þarna erum við að teygja okkur til fyrirtækja sem eru með fáa starfsmenn enda er viðmið til að komast í þetta lánaúræði sniðin að smærri fyrirtækjum,“ sagði Bjarni. Fyrirtækin sem eiga möguleika á þessu úrræði eru fyrirtæki með að hámarki 500 milljónir króna í veltu. Bjarni segir að þessi fyrirgreiðsla geti skipt miklu máli fyrir fyrirtæki og að baki henni sé 100 prósent ríkisábyrgð, sem tryggi að hægt sé að afgreiða mikinn fjölda umsókna á skömmum tíma.

Bjarni segir öllu skipta að það takist að koma af stað innlendri eftirspurn núna eftir að slakað verði á höftum 4. maí. Fyrsti aðgerðarpakkinn og þessi muni auka getu mjög margra til að standa í skilum, til þess að komast í gegnum tekjufall og til þess að borga laun. Þess vegna sé skynsamlegt að grípa til þessara ráðstafana þegar svo mikil efnahagskrísa blasir við. „Vegna þess að valkosturinn að menn nái ekki að borga reikninga og geti ekki greitt laun getur leitt af sér miklu dýpri kreppu en þarf að verða.“

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi