Aldrei fleiri morð á einum degi í Mexíkó

21.04.2020 - 07:28
epa08374455 A member of the National Guards patrols along a street, past a damaged wall, after two confrontations between armed groups in Comunidad del Naranjo, in Guerrero, Mexico, 20 April 2020. According to media reports, the violence took place over two days.  EPA-EFE/Jose Luis De La Cruz
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Þrátt fyrir að yfirvöld í Mexíkó hafi skipað landsmönnum að halda sig heima vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur það haft lítil áhrif á glæpaölduna sem ríkir í landinu. Yfirvöld skráðu 105 morð í landinu á sunnudag og hafa þau ekki verið fleiri á einum degi síðan 104 morð voru skráð 4. apríl. 

„Við erum að berjast við kórónuveiruna, en þurfum því miður áfram að takast á við þessa morðtíðni,“ sagði Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, í gær. Morð eru afar algeng í landinu og á síðasta ári voru skráð 34.608 slík, eða um 95 að meðaltali á dag, og höfðu þau ekki verið fleiri síðan árið 1997.

Síðan stríði var lýst yfir gegn eiturlyfjum í landinu árið 2006 hafa nærri 275 þúsund manns verið myrtir samkvæmt opinberum tölum. Forsetinn vonast til þess að morðtíðnin lækki þegar hægt verður að stemma stigu við fátækt og félagslegri útilokun í landinu. En fyrst þarf að glíma við kórónuveiruna.

„Um leið og við komumst yfir þessa áskorun þá fá glæpamennirnir afarkosti frá okkur stjórnvöldum svo þeir geti orðið löghlýðnir á ný og tekið þátt í samfélaginu,“ er haft eftir forsetanum. Mexíkóska þingið áætlar að ræða frumvarp sem myndi veita glæpamönnum sakaruppgjöf sem eru með tiltölulega stuttan afbrotaferil að baki.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi