Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stórt glæpagengi myrti 47 í nígerískum sveitaþorpum

20.04.2020 - 00:52
epa04520169 Nigerian military on patrol on the Mubi-Vimtim road after the liberation of Mubi, Nigeria 08 December 2014. According to reports the Nigerian military, supported by local militias, recently retook the town of Mubi from Boko Haram, who have been carrying out attacks in Nigeria's north-west, near the border with Cameroon.  EPA/Deji Yake
Her og lögregla hefur verið send á vettvang til að elta uppi glæpagengið sem myrti 47 óbreytta borgara í Katsinahéraði aðfaranótt sunnudags Mynd: epa
Stór hópur vopnaðra glæpamanna á yfir 100 mótorhjólum myrti 47 manns í skipulögðum og samræmdum árásum á nokkur sveitaþorp í Katsinahéraði í norðaverðri Nígeríu aðfaranótt sunnudags. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni í Katsinahéraði. Talsmaður Muhammadus Buharis, Nígeríuforseta, staðfesti þetta í yfirlýsingu frá forsetaembættinu, og kallaði byssumennina „bófa“.

Gambo Isah, talsmaður lögreglunnar í Katsina, segir að sveitir lögreglu- og hermanna hafi verið sendar á vettvang á sunnudag, til að leita glæpamennina uppi. Í frétt AFP segir að talið sé að bófarnir tilheyri glæpagengjum sem sérhæfa sig í nautgripaþjófnaði og mannránum á svæðinu. Nautgripina selja þeir en krefjast lausnargjalds fyrir fólkið sem þeir ræna.

Í tilkynningu lögreglu segir að þorpsbúar hafi veitt glæpamönnunum harða mótspyrnu og hrakið þá á brott þegar þeir gerðu atlögu að þorpunum á laugardagskvöld. Glæpagengið snerið hins vegar aftur um lágnættið, tvíeflt á allt að 150 mótorhjólum þar sem tveir og þrír voru á hverju hjóli. Létu þeir skothríðina dynja á hverjum sem fyrir varð og lögðu eld að húsum fólks, samkvæmt vitnisburði þorpsbúa.

Viðvarandi vargöld

Katsina er heimahérað Buharis forseta. Hann fordæmir árásirnar og heitir skjótum aðgerðum til að stöðva „fjöldamorð bófa á saklausum borgurum.“ Árás næturinn var þó langt í frá sú fyrsta af þessu tagi, segir í frétt AFP, því vopnuð mótorhjólagengi hafa margoft herjað á sveitaþorp og bændur í Katsina og þremur aðliggjandi héruðum á liðnum árum. Síðast í febrúar myrti hópur nautgripaþjófa 30 manns í Batsari-sýslu í Katsinahéraði. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV