Rauk út í skelfingu af fyrstu leiksýningunni

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

Rauk út í skelfingu af fyrstu leiksýningunni

20.04.2020 - 19:39

Höfundar

Þó að leikarar í Þjóðleikhúsinu hafi ýmist verið uppnumdir af hrifningu á fyrstu sýningunni eða skelfingu lostnir eru þeir sammála um að það eigi ómissandi sess hjá þjóðinni.

Þjóðleikhúsið er sjötíu ára í dag, 20. apríl. Ebba Katrín Finnsdóttir var tveggja ára þegar hún fór í fyrsta sinn á leiksýningu í Þjóðleikhúsinu. Sú heimsókn varð því stutt því hún varð felmtri sleginn þegar Hilmir Snær Guðnason skaut af byssu í þann mund sem leiksýningin var að hefjast.

Þórhallur Sigurðsson er í hópi þeirra leikara sem starfað hefur hvað lengst í Þjóðleikhúsinu, í rúma hálfa öld.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

„Það er nú óhætt að segja það að ég hafi komið hingað inn fjögurra ára gamall með foreldrum mínum 1950 og sá hér fyrstu barnasýninguna, Snædrottninguna. Og þetta var náttúrulega þvílík upplifun. Loftið í leikhúsinu, hvernig ljósin fóru upp og niður og ég tala nú ekki um þegar töfrarnir komu á sviðið sjálft,“ segir Þórhallur.

Katrín Ebba Finnsdóttur leikkona hefur allt aðra sögu að segja.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

„Ég heyrði í mömmu og mín fyrsta leikhúsupplifun, hún hélt að það hefði verið Snædrottningin og ég var tveggja ára. Hilmir Snær gengur fram fyrir tjald, ýlfrar mjög hátt og skýtur úr byssu. Það var nóg fyrir mig. Leiksýningin var sem sagt ekki byrjuð og pabbi þurfti að klöngrast með mig eftir öllum bekknum og við fóru bara út og fengum okkur pulsu,“ segir Ebba. „Það var víst hræðileg upplifun en það hefur elst af manni sem betur fer.“

Bygging Þjóðleikhússins hófst 1929 en eftir aðeins 2 ár stöðvuðust byggingaframkvæmdir vegna fjárskorts. Húsið var þá aðeins fokhelt. En breski herinn sá sér leik á borði og fyllti húsið með byssum og öðrum hergögnum.

„Svo var þetta opnað með mikilli viðhöfn 1950. Þetta var á sínum tíma svolítið sameiningartákn og hefur verið það síðan. Fólk elskar húsið,“ segir Þórhallur.

Hann er kyrrlátur, afmælisfagnaðurinn í Þjóðleikhúsinu í dag. 

„Það átti að halda upp á það með sýningu á Kardimommubænum,“ segir Þórhallur.

Bíða verður til ágústloka með frumsýninguna.

„Ég held að það verði sprengja hérna í haust þegar við fáum að koma saman og sitja og finna fyrir fólkinu í kringum okkur og sjá fólk lifandi á sviði, svona eftir einmanaleikann,“ segir Ebba Katrín.

 

Tengdar fréttir

Innlent

Þjóðleikhússafmæli frestað fram á haust

Leiklist

Þjóðleikhúsið ræður í þrjár stjórnendastöður

Leiklist

Þorleifur Örn semur við Þjóðleikhúsið

Leiklist

Thorbjörn Egner fær götu við Þjóðleikhúsið