Kynning á fjarstýringu í hlýrabol sniðug markaðssetning

Mynd: RÚV núll / Núllstilling

Kynning á fjarstýringu í hlýrabol sniðug markaðssetning

20.04.2020 - 15:07
Playstation 5 leikjatölvan kemur til með að líta dagsins ljós í vetur eftir mjög langa bið spilara. Geir Finnsson, tækninörd RÚV núll, fór yfir væntingarnar fyrir tölvuna sem spáð er að verði bæði of dýr og fá eintök verði framleidd til að byrja með.

Á dögunum var fjarstýringin fyrir nýju tölvuna frumsýnd þó aðrir eiginleikar Playstation 5 séu enn á huldu. Nýjasta fjarstýringin er uppfærð frá eldri fjarstýringum sem aðeins geta hrist í höndum spilarans þegar eitthvað gerist. 

Núna finnur þú miklu meira. Þegar þú heldur á fjarstýringunni gefur hún frá sér einhverskonar skynjun. Ef þú til dæmis keyrir um í leðju í leik þá finnur þú fyrir því. 

segir Geir um nýjustu fjarstýringuna, en netverjar hafa margir hverjir bent á að fjarstýringin, sem er hvít og svört, líti út fyrir að vera klædd í hlírabol. 

Eftir margra ára bið og mikla óvissu um komu Playstation 5 fá spenntir spilarar loksins að grípa í gripinn í vetur. Samkvæmt Geir er hins vegar margt sem bendir til þess að tölvan verði of dýr fyrir marga og jafnvel verði framleidd svo fá eintök til að byrja með að erfitt gæti reynst að eignast tölvuna. "Annað hvort verður hún oft uppseld eða of dýr," segir Geir. 

Geir Finnsson var gestur Núllstillingarinnar í dag. Þátturinn er aðgengilegur í Spilara RÚV eftir útsendingu.