Komur 100 skemmtiferðaskipa verið afboðaðar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Komur um eitthundrað skemmtiferðaskipa hafa nú verið afboðaðar í þeim þremur höfnum hér á landi sem taka á móti flestum skipum. Komur í maí og júní hafa nær alfarið þurrkast út og mikil óvissa ríkir um næstu mánuði þar á eftir.

Af 189 komum skemmtiferðaskipa til Faxaflóahafna í sumar er þegar búið að afbóka rúmlega 30. 130 skipakomur eru áætlaðar til Ísafjarðar og 20 af þeim hafa verið afbókaðar. Og hjá Hafnarsamlagi Norðurlands var búist við um 215 komum skemmtiferðaskipa til Akureyrar, Hríseyjar og Grímseyjar og hafa á milli 40 og 50 af þeim verið afbókaðar.

Ekki gert ráð fyrir farþegaskipum í maí og júní

Í langflestum tilfellum eru þetta sömu skipin og flestar afbókanir eru fyrri hluta sumars enn sem komið er. Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna segir að í raun sé ekki gert ráð fyrir neinum farþegaskipum í maí og júní. Þá séu alls konar vangaveltur um næstu mánuði. Landamæri séu víða lokuð til 15. maí og mörg fyrirtæki bíði eftir ákvörðunum stjórnvalda um takmarkanir, bæði hér á landi og annars staðar. Og það sé alveg ljóst að áhrifin nái lengra fram í tímann.

Skipin skapa stóran hluta af tekjum hafnanna

Pétur Ólafsson hafnarstjóri á Akureyri segir að þar séu um 300 heilsársstörf við komur skemmtiferðaskipa. Og ef engin skip komi í sumar geti tapið numið fjórum til fimm milljörðum króna fyrir norðlenska ferðaþjónustu. Guðmundur Kristjánsson hafnarstjóri á Ísafirði segir að yfir 50 prósent af árstekjum hafnarinnar þar séu vegna skemmtifeðaskipa.

Þjóðhagslegur ávinningur 16,4 milljarðar

Þannig að ljóst er að hér er mikið í húfi, en í könnun sem gerð var á síðasta ári komi í ljós að viðskipti í kringum skemmtiferðaskip skapa 16,4 milljarða króna ár hvert og 920 heilsársstörf.
 
 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi