Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hertar aðgerðir verða áfram á Ísafirði og í Bolungarvík

Ísafjörður, Skutulsfjörður, Drónaskot Loftmynd, yfirlitsmynd,
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Hertar aðgerðir með fimm manna samkomubanni og lokuðum skólum verða í gildi í Bolungarvík, Hnífsdal og á Ísafirði til 4. maí, hið minnsta. Létt verður á takmörkunum í Súðavík og á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri 27. apríl og taka þar þá almennar sóttvarnarreglur gildi.

Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, greindi frá þessu á stöðufundi um COVID-19 á Ísafirði í dag.

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er gríðarlega erfið og íþyngjandi ákvörðun. En að vandlega athuguðu máli þar sem staðan var margyfirfarin telur aðgerðastjórn að þetta sé rétta og besta niðurstaðan,“ sagði hann.

Ekki sé hægt að segja til um hvort eða hvernig takmarkanir breytist að þessum tveimur vikum liðnum.

Smitum heldur áfram að fjölga

Súsanna Ástvaldsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum, sagði þessa ákvörðun byggja á því að ekki hafi greinst ný smit í þorpunum utan Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Hins vegar haldi smitum áfram að fjölga í Bolungarvík, Hnífsdal og á Ísafirði. Eins sé samgangur á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar það mikill að hyggilegast sé að viðhalda sömu takmörkunum þar.

Súsanna sagði þó jákvætt að einungis 0,3% samfélagssmit hafi greinst í skimun Íslenskrar erfðagreiningar. Sú tíðni sé lægri en í Reykjavík og til marks um það að aðgerðir skili árangri.