Hart sótt að hersveitum Haftars í Líbíu

19.04.2020 - 06:20
epa07489302 Vehicles and militants, reportedly from the Misrata militia, gather to join Tripoli forces, in Tripoli, Libya, 06 April 2019. According to reports, commander of the Libyan National Army (LNA) Khalifa Haftar ordered Libyan forces loyal to him to take the capital Tripoli, held by a UN-backed unity government, sparking fears of further escalation in the country.  EPA-EFE/STRINGER
Hermenn hliðhollir stjórninni í Trípólí hafa snúist til varnar  Mynd: EPA-EFE - EPA
Her Trípólístjórnarinnar í Líbíu og sveitir hliðhollar henni sækja nú hart að her stríðsherrans Khalifa Haftar, sem hann kallar Líbíska þjóðarherinn. Trípólístjórnin, sem Sameinuðu þjóðirnar og mikill meirihluti ríkja heims viðurkennir sem réttmæta valdhafa í Líbíu, tilkynnt í gær að hersveitir hennar hefðu fellt átta liðsmenn Haftars í sókn sinni gegn her hans í vesturhluta landsins.

 

Stjórnarherinn hefur hert sókn sína að liðsmönnum Haftars til muna á síðustu vikum, segir í frétt Al Jazeera, og hefur hrakið sveitir hans frá fjölda borga og bæja sem hann hafði á valdi sínu til skamms tíma. Þar á meðal er hafnarborgin Sabratha, vestur af Trípólí, og aðliggjandi bæir, Surman og al-Ajaylat.

Borgarastríð frá 2011

Borgarastríð hefur geisað í Líbíu allt frá vígi Muammars Gaddafis árið 2011. Tvær fylkingar bítast um völdin; annars vegar Trípólístjórnin, sem kennir sig við þjóðareiningu, og hins vegar fyrrnefndur stríðsherra, sem er í bandalagi við meirihluta líbíska þingsins sem kosið var af 18 prósentum kjósenda árið 2014, en var úrskurðað umboðslaust nokkru síðar af dómstólum.

Sú stjórn gengur almennt undir heitinu Tobruk-stjórnin, eftir samnefndri borg. Haftar blés til sóknar gegn Trípólístjórninni fyrir réttu ári, með blessun og stuðningi Tobruk-stjórnarinnar. Sú sókn hefur gengið misvel, og nú virðist stríðsgæfan byrjuð að snúast Trípólístjórninni og bandamönnum hennar í hag.

Þrengist um höfuðvígi Haftars í Vestur-Líbíu

Fréttamaður Al Jazeera í Trípólí segir að atburðir síðustu daga sýni að mjög sé farið að fjara undan hersveitum Haftars í vesturhluta landsins. Með töku Sabratha og aðliggjandi bæja sé stjórnarherinn farinn að þrengja að bænum Tarhuna.

Þar eru aðalbækistöðvar Líbíska þjóðarhersins í vestanverðri Líbíu, og þaðan stjórna hernaðarsérfræðingar helstu bandamanna Haftars, Rússa, Egypta og Sameinuðu arabísku furstadæmanna, framsókn hersveita hans gegn Trípólístjórninni.

Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar til að fá stríðsaðila til að leggja niður vopn og semja um vopnahlé, en þær hafa allar reynst árangurslausar. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi