Ferðaþjónustan í kröggum fyrir Covid-19

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flestar greinar ferðaþjónustu voru komnar að þolmörkum áður en kórónuveirufaraldurinn braust út. KPMG leggur til að afskrifaður verði hluta skulda þeirra fyrirtækja sem voru lífvænleg áður en faraldurinn kom upp.

Í skýrslu KPMG um stöðu ferðaþjónustunnar sem unnin var fyrir Ferðamálastofu kemur fram að skuldir ferðaþjónustu hafi aukist um 83 prósent frá árslokum 2015 til ársloka 2019. Á sama tíma jukust tekjur greinarinnar um 3 prósent.

Meiri vanskil en í öðrum greinum

Heildarskuldir greinarinnar til viðskiptabankanna þriggja eru 255 milljarðar króna. Þá eru ekki taldar skuldir í gegnum lífeyrissjóðakerfið og skuldsetning fasteignafélaga sem eiga hótel og því er líklegt að heildskuldsetning ferðaþjónustunnar sé yfir 300 milljörðum.

Annað skýrt merki um vanda ferðaþjónustu fyrir Covid-19 er að finna í vanskilaskrám. Frá ársbyrjun 2018 höfðu vanskil í greininni vaxið um 18 prósent á meðan heildar vanskil voru 8 prósent.

Skuldir á hvert hótelherbergi aukast

Mikið hefur verið fjárfest í hótelum undanfarin ár og skuldsetningin eftir því. Hún jókst um 70 prósent frá árslokum 2015 og jukust skuldir á hvert herbergi úr 7,1 milljón króna í 12,1 milljón. Á þessum tíma fjölgaði hótelherbergjum um rúmlega 3.500 og skuldsetning á hvert nýtt hótlherbergi því 22,6 milljónir.

Niðurstaða KPMG er sú að íslensk ferðaþjónusta hafi þegar verið of skuldsett áður en faraldurinn reið yfir og því þurfi að afskrifa hluta núverandi skulda. Aukin skuldsetning leysi ekki núverandi vanda og því þurfi að skapa skilyrði til að styðja við fyrirtæki sem voru lífvænleg fyrir faraldurinn. Til að mynda að fara þá leið sem farin var í Danmörku, að veita styrk á móti föstum rekstrarkostnaði.

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi