Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kalla eftir verðlækkun og greiðslufresti

18.04.2020 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir að kaupendur sjávarafurða á erlendum fiskmörkuðum séu byrjaðir að kalla eftir verðlækkunum og greiðslufresti vegna minnkandi eftirspurnar af völdum Covid-19. Útflutningsverðmæti sjávarafurða dróst saman um rúma níu milljarða á fyrstu fimmtán vikum þessa árs miðað við sama tíma í fyrra.

 

Útflutningsverðmætið dróst saman um 7,7 prósent milli ára og um 12,2 prósent á föstu gengi samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í gær.

Farsóttin, bræla á kolmunnamiðum og loðnubrestur skýra samdráttinn að mestu leyti.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir að samkomubönn víða um heim hafi haft mikil áhrif á eftirspurn.

„Ferskfiskmarkaðurinn hefur dregist verulega saman eðli málsins samkvæmt þegar veitingastaðir, hótel, fiskborð stórmarkaða loka vegna þess að fólki er meinað að fara út úr húsi og engir eru ferðamenn. Hvort heldur hér á Íslandi eða erlendis. Þannig að það hefur haft mikil áhrif. Hins vegar hafa aðrir markaðir gengið með ágætum og flutningar hafa þrátt fyrir erfitt ástand gengið ágætlega,“ segir Heiðrún.

Hún segir að kaupendur á frystum sjávarafurðum séu þegar byrjaðir að kalla eftir verðlækkunum.

„Við heyrum af miklum þrýstingi niður á við. Það er þá bæði vegna þess að það er meira framboð af frystum afurðum en líka vegna þess að kaupmáttur viðskiptavina okkar erlendis er að líkindum minni í þessu árferði. Þannig að það er mikill þrýstingur á bæði verðlækkun og líka framlengingu eða greiðslufresti og það er áhyggjuefni,“ segir Heiðrún. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV