Biles tekur ár í viðbót og hættir svo

epa07918047 Simone Biles of USA reacts after the Floor women's Apparatus Final at the FIG Artistic Gymnastics World Championships in Stuttgart, Germany, 13 October 2019.  EPA-EFE/DANIEL KOPATSCH
 Mynd: EPA

Biles tekur ár í viðbót og hættir svo

18.04.2020 - 12:24
Bandaríska fimleikakonan Simone Biles, sigursælasta fimleikakona sögunnar, viðurkennir í viðtali við BBC að hún hafi hugleitt að hætta keppni þegar Ólympíuleikunum var frestað um ár. Hún ætli þó að taka ár til viðbótar og hætta svo.

Biles vann fern gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016. Eftir leikana þá hætti hún keppni en sneri aftur átján mánuðum síðar og setti þá stefnuna á leikana í Tókýó. 

Eftir að leikunum var frestað vegna Covid-19 faraldursins þurfti hún að endurskoða allar sínar áætlanir.

„Ég grét,“ segir hún um sín fyrstu viðbrögð við frestuninni.

„Ég vissi ekki alveg hvar ég ætti að byrja. Það er býsna mikið álag, bæði líkamlega og andlega, að bæta ári við og ég efaðist um getu mína til halda mér á toppnum í ár til viðbótar.“

„Það er erfitt að endursetja dagatalið þegar þú hefur eytt lífi þínu í að vera klár á einhverjum ákveðnum tíma. Það tók á.“

Hún viðurkennir að hafa íhugað það að láta þetta gott heita og hætta bara.

„Já, ég gerði það. En mér fannst ég geta hafa komist þetta langt til að gefast svo bara upp. Ég vil líka vera sú sem ákveður hvort þetta sé gott eða ekki,“ segir Biles. 

Finnst hún frekar gömul

Biles lýsir sjálfri sér sem frekar gamalli af fimleikakonu í Bandaríkjunum að vera. Hún er 23 ára gömul. Venjulega hafi fimleikakonur í Bandaríkjunum keppt á einum leikum og svo hætt fyrir tvítugt.

Árin hafi tekið sinn toll líkamlega en hún telur þó andlega þáttinn vera erfiðustu áskorunina.

„Líkaminn er þegar farinn að gefa sig. Ár af fimleikum í viðbót er talsverð þrekraun fyrir skrokkinn. Þjálfararnir munu koma mér í toppstand en ef hugur fylgir ekki máli þá vaknar meiðslahættar. Líkamlega finnst mér ég vera í betra standi en í Ríó 2016 en andlega þarf ég að vera tilbúin. Það verður stærsta áskorunin.“