60 Íslendingar hafa ekki fundið far heim

18.04.2020 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Um sextíu Íslendingar víða um heim eiga í erfiðleikum með að komast heim til Íslands, vegna ferðatakmarkana sem gripið hefur verið til vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu, segir að búið sé að leysa úr fjölda mála. Þau flóknustu séu eftir.

„Það eru í kringum sextíu manns, þetta er að vísu tala sem hefur staðið svolítið í stað undanfarna daga. Fólk kemur heim og nýir bætast við á listann okkar þannig að það eru um sextíu manns vilja gjarna komast heim en eiga í vandræðum með að komast, af ýmsum ástæðum,“ segir María Mjöll. „Það eru ekki síst lokanir innanlands sem varna því að fólk komist milli staða til að komast í flug og svo náttúrulega eru engin flug á sumum stöðum,“ segir hún. 

Fólkið er statt í löndum víða um heim. Utanríkisráðuneytið á í samstarfi við Norðurlöndin og fylgist vel með heimflutningi borgara Evrópuríkja. María Mjöll að staðan sé sú sama víða, að erfiðustu málin séu eftir núna vegna flókinna aðstæðna í mörgum löndum. Sé miðað við borgara Evrópuríkja er talið að um 80 prósent þeirra sem ætla sér að snúa heim sé þegar komin á leiðarenda.  María Mjöll segir að fólk sé í fámennum hópum víða umheim og því sé erfiðara um vik að skipuleggja ferðir. 

Brýnt er að fólk nýti þau flug sem eru í boði, enda sé ekki hægt að treysta á áætlunarflug, sérstaklega ekki ef flug hafi verið felld niður marga daga og jafnvel vikur á undan, að sögn Maríu Mjallar. „Áætlunarflugum hefur fækkað mjög mikið, sömuleiðis hefur svokölluðum borgaraflugum eða heimflutningum fækkað líka. Þannig að þeir sem vilja koma heim ættu að grípa hvern þann kost sem að býðst akkúrat núna.“

Það hefur verið mikið álag á borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins eftir að veiran fór að smitast um heiminn og ferðatakmarkanir að taka gildi. Færri fyrirspurnir berast þó þessa dagana en fyrr á árinu, enda er stærsti hluti fólks kominn heim. Eins og staðan er núna eru málin flóknari og þá þarf nokkra starfsmenn til að leysa þau. „Við vinnum að því með sendiráðunum okkar að leysa úr þessum málum sem eftir eru eins vel og hægt er og munum gera okkar allra besta,“ segir María Mjöll. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi