Telur að aldurinn gefi tilefni til vægari refsingar

17.04.2020 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur hefur hafnað beiðni konu um sjötugt, sem dæmd var fyrir tilraun til manndráps, um áfrýjunarleyfi. Héraðsdómur Vesturlands dæmdi konuna í fjögurra ára fangelsi í maí í fyrra fyrir að stinga sambýlismann dóttur sinnar í bringuna, en konan neitaði sök fyrir dómi.

Málinu var áfrýjað til Landsréttar. Síðla í febrúar staðfesti Landsréttur niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands en þyngdi refsinguna um eitt ár.

Konan óskaði eftir því að Hæstiréttur tæki málið til meðferðar, meðal annars á þeim forsendum að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur enda hafi hvorki komið fram lögfull sönnun fyrir þeirri háttsemi sem konunni var gefið að sök í ákæru né um að konan hafi unnið verkið af ásetningi.

Þá telur konan, sem er um sjötugt, að taka hefði átt tillit til aldurs og aðstæðna hennar þegar viðurlög voru ákveðin og hún hefði átt að fá mun vægari refsingu.