Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sjö ferðaþjónustufyrirtæki hafa skilað starfsleyfi sínu

17.04.2020 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Sjö fyrirtæki á Suðurlandi og Vesturlandi hafa beðið um niðurfellingu starfsleyfis hjá Ferðamálastofu. Þrjú af þeim ætla ekki að hætta rekstri heldur draga saman seglin og sækja um annars konar starfsleyfi.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Ferðamálastofu við fyrirspurn frá fréttastofu. Þar segir að ekki sé vitað hvort þetta tengist COVID-19 beint en fyrirtækin séu öll með litla eða enga starfsemi. Þrjú þeirra ætla ekki að hætta rekstri heldur draga saman starfsemina og hætta að selja pakkaferðir. Þau þurfa að sækja um annars konar leyfi. 

Ferðamálastofu berst allajafna nokkrar beiðnir um niðurfellingar á leyfum á þessum tíma árs því að 1. apríl rennur út frestur til að skila inn gögnum fyrir árlegt endurmat á fjárhæð trygginga vegna sölu á pakkaferðum.

Fyrirtækin, sem öll hafa selt samsettar pakkaferðir, eru staðsett í Reykjavík, Reykjanesbæ og á Vesturlandi. Stofnunin gerir ráð fyrir að í ljósi ástandsins berist fleiri beiðnir um niðurfellingu leyfa. Engin leið sé þó að meta hversu margar þær geta orðið.