Kemur á óvart að fleiri greinast með kynsjúkdóma

17.04.2020 - 15:31
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Lögreglan
Kynsjúkdómar hafa greinst í umtalvert meira mæli hér á landi það sem af er ári miðað við fyrri ár. Þetta kemur fram í Farsóttarfréttum, sem birtust á vef Landlæknis fyrr í vikunni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagðist á daglegum upplýsingafundi Almannavarna og Landlæknis hafa áhyggjur af þessu. Tölurnar sýndu að Íslendingar fari ekki nógu varlega í kynlífi, eins og margoft hafi verið varað við.

„Vissulega er það áhyggjuefni að það er aukning það sem af er ári á sárasótt og lekanda líka. Klamydía er á svipuð róli og HIV líka,” sagði Þórólfur og tók fram að þetta yrði skoðað betur. „Þetta kom okkur svolítið á óvart vegna þess að við vorum ekki með hugann við þetta. En þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða betur,“ sagði hann.

Í farsóttarfréttum kemur fram að um það bil 92 prósent þeirra sem greindust með sárasótt voru karlar, hlutfall karla meðal þeirra sem greindust með lekanda var 73 prósent en kynjahlutföllin voru jöfn meðal þeirra sem greindust með klamydíu.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi