Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Helmingi fleiri dóu úr COVID-19 í Wuhan en talið var

17.04.2020 - 06:15
epa08364361 A passenger wearing protective gears gets off the train which arrived from Wuhan to the railway station in Beijing, China, 15 April 2020. Wuhan, the epicenter of the coronavirus outbreak, lifted the lockdown on 08 April, 2020, allowing people to leave the city after more than two months.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Heilbrigðisyfirvöld í borginni Wuhan í Kína, þar sem COVID-19 faraldurinn á upptök sín, birtu í morgun nýja skýrslu um áætlaðan fjölda borgarbúa sem lést af völdum sjúkdómsins. Samkvæmt henni voru þeir helmingi fleiri en áður var talið. Í skýrslunni segir að 1.290 dauðsföll í borginni, sem ekki voru inni í fyrri tölum, hafi nú verið rakin til COVID-19. Þetta þýðir að 3.869 Wuhanbúar létust úr sjúkdómnum, um 50 prósentum fleiri en áður var talið.

Þá hækkar þessi leiðrétting fjölda látinna á landsvísu um nær 40 prósent, upp í 4.632. Í færslu borgaryfirvalda á samfélagsmiðlum segir að þetta megi einkum rekja til rangra greininga og hreinna yfirsjóna á heilbrigðisstofnunum borgarinnar þegar álagið þar var mest.  Er þetta í fyrsta sinn sem kínversk stjórnvöld viðurkenna að fórnarlömb farsóttarinnar þar í landi hafi verið vantalin.

Vaxandi efasemdir um áreiðanlega kínverskra talna

Utan Kína gætir vaxandi tortryggni í garð þarlendra yfirvalda og upplýsinga sem frá þeim koma um farsóttina. Mest er tortryggnin á Vesturlöndum og hvergi meiri en í Bandaríkjunum, þar sem Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur ítrekað viðrað vantrú sína á upplýsingum sem þaðan koma.

Margar skýringar

Í yfirlýsingu frá sóttvarnamiðstöð Wuhanborgar segir að vantalningin eigi sér margar skýringar. Þar vegi þungt hve álagið var gríðarlegt á starfsfólkið á sjúkrahúsum borgarinnar þegar ástandið var hvað verst. Þetta hafi leitt til þess að dauðsföll af völdum COVID-19 hafi ýmist verið tilkynnt seint, ranglega skráð eða jafnvel rakin - ranglega - til annarra orsaka.

Einnig hafi skort nokkuð á sýnatöku og sjúkrarými framan af, auk þess sem töluvert hafi verið um að fólk sem dó í heimahúsum hafi ekki ratað í skýrslur yfirvalda sem COVID-19 tilfelli. Allt þetta hafi nú verið grannskoðað og fært til betri vegar.

Svipað er uppi á teningnum í Bandaríkjunum, þar sem tala látinna hefur verið hækkuð um nokkur þúsund eftir yfirferð og endurskoðun gagna á síðustu dögum.