Fimm hressandi stuðlög fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Gorillaz - Aries

Fimm hressandi stuðlög fyrir helgina

17.04.2020 - 11:53

Höfundar

Nýr Elvis sendir frá sér TikTok-snilld, fólk svarar ekki símanum til að vera merkilegt og þriðji þáttur í nýju sápuóperunni frá Gorillaz, poppsnilld með óvæntum endalokum og gaur sem reynir að fokka þessu öllu upp.

Drake - Toosie Slide

Enn einu sinni sannar kanadíski rappkóngurinn Drake af hverju hann er nýi Elvis. Hann dúndrar á okkur algerlega úthugsaðri TikTok-markaðsbrellu með úthugsuðu COVID-19-tvisti. Fyrir okkur gamla aðdáendur Innlits útlits er gaman að fara í sóttkvíarinnlit í boði Nike á heimili hans í Toronto, sérlega áhugavert í poppkúltúrlegu samhengi. Svo er lagið jafn heimskulega einfalt og grípandi og nýristað brauð með þínu uppáhaldsáleggi.


Troye Sivan - Take Yourself Home

Áfram með meistarapopp því fátt er fallegra en vel gert og frumlegt popp með óvæntum endalokum. Lag Troye Sivan, Take Yourself Home, er svo sannarlega í þeim flokki. Lagið er fyrsti söngull af nýju plötu hans sem er hans þriðja. Svo lék hann auðvitað í Wolverine og Boy Erased, ef þið eruð ekki nú þegar orðin 700 ára af þekkingarleysi.


Gorillaz ft. Peter Hook & Georgia - Aries

Þá er komið að þriðja hluta í nýju seríu Gorillaz, Song Machine, sem minnir okkur á að halda höndunum hreinum. Gestalætin og súra partístemmningin í Gorillaz halda áfram með bresku tónlistarkonunni Georgiu og bassaleikara New Order og Joy Division, Peter Hook.


The Streets, Tame Impala - Call My Phone Thinking I'm Doing Nothing Better

Við vitum öll að símar í dag eru ekki næstum því jafn góðir og í gamla daga og sími, fyrir alla sem eru mikilvægir, er fyrst of fremst til þess að vera á tali eða taka við skilaboðum. Í nýja myndbandi og lagi The Streets er lögð áhersla á þetta, þetta er mikilvægt - ekki vera fáviti, svaraðu fokking símanum.


Jamie xx - Idontknow

Nú er hugguheita-indígaurinn Jamie úr xx kominn aftur í klúbba undirölduna og sterkari efni til að koma sér í partígírinn. Langt síðan síðast og velkomið með nýja laginu sínu Idontknow. Hérna eru engin xx-huggulegheit bara vesen, einangrun, aggressívheit og leiðindi, mjög fínt.


Fimm á föstudegi á Spotify