Deila virkjunarsinna og andstæðinga fyrir dóm

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Eigendur að meirihluta jarðarinnar Drangavíkur hafa höfðað mál gegn eigendum jarðanna Engjaness og Ófeigsfjarðar. Þeir vilja fá úr því skorið fyrir dómi hvar mörkin liggja milli jarðanna. Niðurstaða þess dómsmál getur haft áhrif á fyrirhugaða Hvalárvirkjun. Eigendur jarðanna Engjaness og Ófeigsjarðar eru hlynntir virkjun en eigendur Drangavíkur eru henni alfarið mótfallnir.

Áform um Hvalárvirkjun byggja að hluta á því að Eyvindarfjarðarvatn sé að hálfu á landi Engjaness hvers eigandi styður virkjun. Meirihluti eigenda Drangavíkur segir hins vegar að vatnið og Eyvindarfjarðará séu á sínu landi, þar sem mynda eigi uppistöðulón. Þeir vilja koma í veg fyrir virkjun. Deilendur miða báðir við landamerkjabréf frá 1890 en deila um túlkun þess.

Héraðsdómur Vestfjarða vísaði máli meirihluta landeigenda Drangavíkur gegn Vesturverki og Árneshreppi frá dómi í janúar. Landeigendur vildu að framkvæmdaleyfi VesturVerks fyrir framkvæmdum á Ófeigsfjarðarheiði vegna Hvalárvirkjunar yrði fellt úr gildi, sem og deiliskipulag hreppsins vegna framkvæmdanna. Dómstóllinn vísaði málinu frá dómi þar sem ósannað þótti að framkvæmdirnar beindust að landi í eigu Drangavíkur.

Leiðrétt 17:48 Vísun í kort í úrskurði óbyggðanefndar um Drangjökul hefur verið fjarlægð. Það lýsti málflutningi landeigenda en ekki afstöðu óbyggðanefndar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi