Tveir handteknir með skotvopn eftir hótanir í Vesturbæ

Lögregluaðgerð við Ægisíðu 07.03.2018
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit Ríkislögreglustjóra hafa vakið athygli íbúa í Vesturbæ Reykjavíkur í kvöld og ljóst að um töluverðan viðbúnað er að ræða.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að henni hafi bortist ábending um tvo menn sem ógnuðu þeim þriðja með skotvopni í Vesturbæ Reykjavíkur. Lögreglan fór þegar á staðinn auk sérsveitar. Tveir karlar um þrítugt voru handteknir vegna málsins, en jafnframt var lagt hald á skotvopn. 

Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði við mbl.is að leitað hafi verið að mönnum af erlendu bergi brotnu í tengslum við mál sem kom upp í hverfinu í dag. Í tilkynningu lögreglu segir að rannsóknin sé á frumstigi og ekki sé hægt að veita nánari upplýsingar að svo stöddu.

Fréttastofa hefur einnig heyrt af lögregluaðgerðum á horni Skeiðarvogs og Gnoðarvogs í kvöld, en ekki er vitað hvort tengsl séu þar á milli.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir tilkynningu frá lögreglu.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi