Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stjórn Vinnslustöðvarinnar á eftir að gera upp hug sinn

16.04.2020 - 19:01
Mynd með færslu
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Vinnslustöðinni. Mynd: RÚV
Stjórn Vinnslustöðvarinnar hittist á fundi síðdegis í dag og ræddi málsókn fyrirtækisins á hendur íslenska ríkinu vegna ágreinings um úthlutun aflaheimilda í makríl. Stjórnin ætlar að bíða með að taka ákvörðun um það hvort fyrirtækið haldi sinni kröfu til streitu. 

Sjö sjávarútvegsfyrirtæki höfðu ákveðið að stefna íslenska ríkinu og krefjast rúmlega 10 milljarða króna í bætur. Fimm af þessum sjö fyrirtækjum tilkynntu það í gær að þau hafi ákveðið að falla frá málsókninni til að sýna samstöðu vegna kórónuveirufaraldursins. Vinnslustöðin og Huginn voru ekki með í því.

„Menn ætla að sofa á þessu eina nótt enn, og kannski yfir helgina líka,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, í samtali við fréttastofu um stjórnarfundinn. Hann segir málið ekki einfalt og mikið þurfi að ræða, en krafa Vinnslustöðvarinnar eru upp á um milljarð króna.

Páll Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hugins, sagði í samtali við fréttastofu í gær að fyrirtækið ætli að halda sinni kröfu til streitu. Hún hljóðar upp á rúmar 800 milljónir króna.