Öryggi er aðalatriðið í BDSM

Mynd: Indíana Rós / Indíana Rós

Öryggi er aðalatriðið í BDSM

16.04.2020 - 16:18
Indíana Rós Ægisdóttir, kynfræðingur, ræddi og fræddi um BDSM í Núllstillingunni á RÚV 2.

Hugtakinu BDSM tilheyra bindingar, drottnun, sadókismi og masókismi og muna- og skynjunarlosti. „Margir halda kannski að BDSM sé bara ofbeldi en það snýst raunar að miklu leyti um virðingu, samþykki og öryggi,“ segir Indíana. 

Þá benda margar rannsóknir í dag til þess að BDSM sé kynhneigð. Sumir byrja snemma og það eru til dæmi um krakka sem leika sér að binda barbídúkkurnar sínar og eru því snemma komnir út í einhverjar pælingar. „Svo er þetta fyrir einhverja bara eitthvað sem maður kannski prófar og finnur að maður fílar, það eru einhverjir á þessu vanillurófi, að rasskella og handjárna í kynlífi til dæmis. Þetta er nefnilega róf eins og með margt annað“ bætir hún við.

Það mikilvægasta sem þarf að hafa í huga séu hins vegar samskipti, það eigi reyndar við í öllu kynlífi. Fólk sem tilheyrir BDSM samfélaginu á samtal bæði fyrir og eftir, um það hvernig skuli binda eða slá og hvernig upplifunin var eftir á. „Samskiptin þarna eru miklu betri en í „venjulegu“ kynlífi. Markmiðið er að tryggja öryggi.“

Viðtalið við Indíönu má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. Núllstillingin er á dagskrá milli 14 og 16 alla virka daga á RÚV 2 og ruv.is.