Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ofbeldi og misnotkun er að aukast“

16.04.2020 - 19:51
Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Mikill skortur á vímuefnum á markaðnum vegna kórónuveirufaraldursins gerir það að verkum að staða fólks sem glímir við erfiðan vímuefnavanda hefur versnað mjög mikið að undanförnu. Þetta segir Svala Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum.

„Fólk sem glímir við erfiðasta vímuefnavandann þarf að hafa mjög mikið fyrir því að redda sér. Og í ljósi þess, þá sjáum við að ofbeldi og misnotkun er að aukast gagnvart fólkinu okkar,“ segir Svala.

„Við erum komin með fjölmörg mál sem hafa gerst á síðustu dögum um ofbeldi gegn konum með alvarlegan vímuefnavanda, þar sem er verið að skipta á einhverju kynferðislegu og efnum. Staðan er ekki góð, bæði er þetta hópur sem glímir nú þegar við mikla áfallasögu svo geðheilsan er ekki góð. Þetta er afar viðkvæmur hópur og staða hópsins í dag er mun verri en fyrir COVID-ástandið,“ segir Svala.

Hvað er hægt að gera?

„Það sem skiptir rosalega miklu máli er að auka aðgengi að allri vímuefnameðferð fyrir hópinn, að fólk þurfi ekki að bíða svona lengi eftir því að komast í meðferð. Síðan þarf að koma til móts við hópinn sem treystir sér ekki til að hætta að nota vímuefni. Þá er það gert með því að auka aðgengi að fjölbreyttum viðhaldsmeðferðum og skaðaminnkandi meðferð, svo við setjum fólk ekki í svona hættulega stöðu,“ segir Svala Jóhannesdóttir.

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV