Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Laun óperusöngvara lækkað að raungildi

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna furðar sig á því að laun söngvara hafi lækkað að raungildi á sama tíma og fjárframlög til Íslensku óperunnar hafi haldist óbreytt. Gagnsæi skorti í rekstri og þá furðar hann sig á því að reksturinn fari ekki í útboð. 

Íslenska óperan frumsýndi Brúðkaup Fígarós í september. Átta af söngvurunum í sýningunni voru óánægðir með launagreiðslur og leituðu til stéttarfélags, Félags íslenskra hljómlistarmanna. Samanlagðar launakröfur þeirra eru um fjórar milljónir króna. Þeir saka óperustjóra um að neita að greiða eftir gildandi samningi. Hann hins vegar segir samninginn ekki vera í gildi.

Gunnar Hrafnsson, formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna, segir að sex félög til viðbótar hafi lýst óánægju með viðskipti sín við Íslensku óperuna.

„Það er klassísk deild FÍH, Rithöfundasambandið, Félag íslenskra leikara, Félag leikstjóra á Íslandi, Tónskáldafélagið og Klassís, sem er fagfélag klassískra söngvara á Íslandi,“ segir Gunnar.

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri sagði í samtali við fréttastofu í nóvember að FÍH-samningurinn hafi gilt þegar einsöngvarar voru fastráðnir við Íslensku óperuna en það séu þeir ekki lengur.

Gunnar segir hins vegar að samningnum hafi aldrei verið sagt upp og því eigi hann að gilda.

Þá hefur einn óperusöngvaranna, Þóra Einarsdóttir, höfðað mál á hendur Íslensku óperunni. Gert er ráð fyrir að málið hefjist fyrir héraðsdómi í haust. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að Þóra hafi ákveðið að leita til stéttarfélagsins vegna þess að vinnuálag hafi farið langt fram úr ákvæðum samnings. Óperustjóri hefur sagt að Íslenska óperan hafi ekki úr miklum fjármunum að moða.

„Með því að skoða kjör nokkurra söngvara sé ég að raungildi launa þeirra hefur rýrnað línulega yfir árabil. Þá spyr maður sig, í hverju felst kostnaðurinn? Af hverju er þetta erfiðara og erfiðara? Af hverju þurfa launin að lækka markvisst til þess að hægt sé að reka stofnunina?,“ spyr Gunnar.

Hafa framlög ríkisins til Íslensku óperunnar ekki lækkað á síðustu árum?

„Þau hafa ekki lækkað mér vitanlega,“ segir Gunnar.

Félögin hafa átt tvo fundi með Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. Þar hafi meðal annars verið rætt hvort rétt væri að bjóða út rekstur Íslensku óperunnar.

„Við gerðum ákveðnar athugasemdir við það hvort það væri eðlilegt að svona stórar upphæðir rynnu til Íslensku óperunnar án þess að það færi fram útboð og án þess, að því er manni virðist, að það væri mikil eftirlit með starfseminni af hálfu fjárveitandans. Ef við skildum hana rétt þá voru hennar viðbrögð sú að þessi rekstur yrði settur í útboð,“ segir Gunnar.