Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hinn sterki sýnir mátt sinn

Mynd: RÚV / RÚV

Hinn sterki sýnir mátt sinn

16.04.2020 - 13:12

Höfundar

Halldór Armand rýnir í speki Þrasýmakkosar um að réttlæti sé alltaf hinna valdamiklu, og ber saman við milljarðakröfu útgerðarfyrirtækja á hendur ríkinu vegna útlhlutunar makrílkvóta.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Það er ekki langt síðan fréttir bárust af því að auðmaður í sjávarútvegi hefði sent sjávarútvegsráðherra tölvupóst þar sem hann óskaði eftir því að reglugerð um hvalskurð yrði breytt. Tíu dögum síðar undirritaði ráðherra síðan breytingu á reglugerðinni í samræmi við óskirnar sem settar voru fram í tölvupóstinum. Þegar ég las þetta gat ég ekki varist því að hugsa að svona hafði mér ekki verið kennt í lagadeild Háskóla Íslands að lög væru sett. Réttarheimilidirnar í íslenskum rétti, það er að segja grundvöllur þess hvaða lög gilda í landinu hverju sinni, voru texti laganna, svokölluð fordæmi, meginreglur laga, eðli máls og svo framvegis, en þar var ekkert minnst á tölvupósta frá auðmönnum. 

Í þessu tilviki virtist hins vegar tölvupóstur vera hin eina sanna réttarheimild, þar mátti finna hinn eina sanna anda laganna. Hvaða reglur gilda um hvalskurð á Íslandi? Rétt svar samkvæmt bókinni er að segja: Reglurnar sem ráðherra setur í reglugerð. En rétta svarið í raunveruleikanum er kannski frekar: Þær reglur sem auðmenn biðja um í tölvupóstum. En nú ímynda ég mér að margir af prófessorunum sem fræddu mig um hugtakið réttarríki á sínum tíma vilji frekar skera af sér eyrun en að heyra mig misþyrma eigin þekkingu með svo viðvaningslegum útúrsnúningum. Og það er rétt, að þetta eru hálfgerðar hártoganir hjá mér vegna þess að tæknilega séð snýst lögfræði um að rannsaka það hvernig lögin eru en ekki af hverju þau eru eins og þau eru – það er allt önnur spurning.

Það má vel vera að þessi tölvupóstur hafi innihaldið skynsamlegar tillögur, ég veit ekkert um það, kannski var þessi reglugerð um hvalskurð fullkomlega úrelt, en þetta er lítið dæmi um það hversu ólíkur raunveruleikinn er oft því sem maður hefur heyrt um hann og auðvitað hversu fínt og skilvirkt lífið er eflaust þegar þú hefur raunveruleg völd. Það eru óbreyttir borgarar þarna úti sem geta fengið lögum breytt með því að senda einn tölvupóst meðan þorri almennings hefur hér um bil ekkert um það að segja hvaða lög og reglur mynda rammann utan um tilvistarbaráttu hans frá vöggu til grafar.

Jú, það er alveg rétt að hlustendur Lestarinnar eru alveg jafn frjálsir og auðmenn í sjávarútvegi til þess að senda ráðherra tölvupóst í kvöld með tillögum að breytingum á íslenskum rétti sem gætu komið sér vel fyrir þá eða atvinnurekstur þeirra, en ég myndi bara ekki setja peningana mína á það að svar myndi berast. Satt best að segja held ég að það sé nokkuð augljóst að líkurnar á því að svar berist haldast í hendur við það hversu efnaður og þar með valdamikill sendandinn er.

Þrasarinn sem tróð sokk upp í Sókrates

Í fyrstu bók Ríkisins eftir Plató mætir Sókrates einum af mergjaðri og líflegri andstæðingum sínum þegar lýðfræðarinn Þrasýmakkos brýst blóðheitur fram á sjónarsviðið og treður í grófum dráttum sokk upp í spekinginn auðmjúka eftir að hafa hlýtt á hann ræða við samferðamenn sína um hvað réttlæti sé. Þú ert skýjaglópur, segir Þrasýmakkos, draumóramaður, og þessar háleitu hugmyndir þínar um réttlæti eru einfaldlega bull sem á ekkert skylt við raunveruleikann. Réttlæti er bara það sem hentar hinum sterka best. Það skiptir ekki máli hvernig stjórnfyrirkomulagið er. 

„Sérhver valdstjórn setur lög í eigin þágu,“ segir Þrasýmakkos. „Lýðræðisstjórn setur lýðræðislög, einvaldsstjórn einvaldslög og svo framvegis. Og þegar búið er að setja lögin lýsa stjórnirnar því yfir að það sem kemur þeim sjálfum vel sé réttlátt fyrir þegnana og þeim sem ekki fer eftir þessum lögum er refsað fyrir lögbrot og rangleitni.“

Sókrates maldar í móinn og reynir að hrekja þetta nöturlega lífsviðhorf Þrasýmakkosar um réttlætið en í sannleika sagt tekst honum ekki vel upp og maður þarf að halda svolítið mikið með málstaðnum til að sjá eitthvert hyggjuvit í máttlausri röksemdafærslunni. Til dæmis reynir hann að verja fagurgala sinn um réttlætið með því að halda því fram að hvers kyns kunnáttumanneskja í tiltekinni grein verji fremur hagsmuni þess sem hún stjórnar og er viðfangsefni hennar heldur en sína eigin. Til dæmis myndi enginn alvöru læknir sinna eigin hagsmunum í störfum sínum heldur geri hann það sem sé sjúklingnum fyrir bestu. Þar með hugsi hann um þá sem minna mega sín. 

Þrasýmakkos hlær að þessari einfeldni og segir: „Það að þú skulir láta þér til hugar koma að fjárhirðar eða kúasmalar beri heill sauðanna eða nautgripanna fyrir brjósti; að þeir hafi eitthvað annað í huga en velferð húsbændanna og sjálfra sín þegar þeir eru að fita búpeninginn og hlúa að honum! Eins heldurðu að stjórnendur borgríkjanna – hinir sönnu stjórnendur á ég við – hafi einhver önnur viðhorf til þegna sinna en maður hefði til sauðkindarinnar og þeir séu að hugsa um eitthvað annað nótt sem nýtan dag en það hvernig þeir geti sjálfir hagnast (…) Þú áttar þig ekki á því að réttlætið og það sem réttlátt er eru í rauninni annars manns gæði, það sem kemur vel hinum sterka og þeim sem stjórnar á kostnað hins hlýðna undirsáta. Ranglætið er hins vegar andstæðan sem hinir sönnu einfeldningar og réttlátu menn láta stjórna gerðum sínum. Þeir gera það sem kemur hinum sterka vel og standa vörð um velferð hans með hlýðni sinni, en skeyta ekkert um eigin velferð.“

Þetta eru ansi kröftugt mótmæli. Síðan bendir hann á að hvort sem það eru viðskipti eða stjórnmál eða hvaðeina, þá komi sér alltaf betur að vera ranglátur. Að lokum klykkir hann út með því að segja að ranglætið sé í senn máttugra, frjálsmannlegra og fyrirmannlegra en réttlætið, „gangi maður bara nógu langt í því,“ eins og hann segir. Sá sem tekur með ofbeldi og svikum eigur annarra er kallaður þjófur, ræningi, hnuplari og svo framvegis. En sá sem lætur sér ekki nægja að taka eignir samborgara sinna heldur hneppir þá líka sjálfa í þrældóm, er ekki kallaður þessum ljótu nöfnum. Nei, hann er rómaður fyrir velsæld sína af öllum þeim sem frétta að hann hafi framið „hinn fullkomna glæp“.

Þetta var skrifað fyrir 2.500 árum síðan og deilan um það hvað réttlæti sé stendur ennþá óleyst í dag.

Jafnrétti þess að ríkir sem fátækir megi ekki betla brauð

Mér varð hugsað til þessa og reglugerðarinnar sem barst í tölvupósti þegar fréttir bárust af því um páskana að stærstu útgerðir landsins krefjist nú milljarðabóta úr ríkissjóði vegna þess að ekki hafi verið rétt staðið að úthlutun makrílkvóta. Nú veit ég ekkert um málavexti og segi því aftur: Það má vel vera að þetta sé allt satt og rétt, að framkvæmdavaldið hafi ekki farið að lögum, eins og því ber að sjálfsögðu að gera. Topparnir í ríkisstjórninni hafa gagnrýnt útgerðina fyrir bótakröfuna og segja þetta ekki góð leið til þess að efla samstöðu í samfélaginu þegar hart er í ári. Það er örugglega rétt, að þetta styrkir svo sannarlega ekki samstöðuna, en hins vegar er ekki hægt að fara fram á það að fólk uni einfaldlega við það að ríkisvaldið brjóti lög – ef það telur að sú sé raunin – til þess að þyrma ríkissjóði á tímum kórónaveirunnar. (Síðan pistillinn birtist hafa fimm sjávarútvegsfyrirtæki af sjö fallið frá kröfum sínum á hendur íslenska ríkinu.)

En þetta snýst ekki um það hvað er smekklegt eða til þess fallið að efla samstöðu. Hér er miklu stærri spurning undirliggjandi, 2.500 ára gömul kannski, um hvað réttlæti sé. Hér er nefnilega hinn sterki að sýna mátt sinn. Endurspeglar íslensk fiskveiðilöggjöf eitthvað sem við getum kallað réttlæti, vegna þess að lögin og reglurnar uppfylla þau formskilyrði sem við gerum til laga, voru réttilega sett af kjörnum fulltrúum og svo framvegis, eða endurspegla þau einfaldlega það sem Þrasýmakkos segir, hagsmuni hina sterku? Á seinni hluta liðinnar aldar var íslensku lagasetningarvaldi beitt í nokkrum skrefum til þess að gefa einstaklingum auðlind hafsins kringum Ísland til eignar, um alla eilífð, án endurgjalds. Eitt af meginhlutverkum Alþingis í dag er að sjá til þess að þetta fyrirkomulag breytist aldrei. 

Stærstu og auðugustu útgerðir á Íslandi eiga – mögulega – lögmæta bótakröfu upp á rúmlega tíu milljarða króna á hendur skattgreiðendum. Hvað endurspeglar slíkur bótaréttur? Réttlæti í þeim skilningi að Alþingi setji lög sem samfélagið vill að gildi um það sjálft og jafnt fyrir alla borgara þess? Eða er hann einfaldlega birtingarmynd hagsmuna hinna ríku og sterku? Fari svo að dómstólar viðurkenni bótaréttinn getur eflaust hvaða einasti lögfræðingur á Íslandi stigið fram og sagt: Ja, dómstólar dæmdu bara eftir lögunum og það er það sem þeir eiga að gera. En þá mun standa eftir okkar forni efi. En hvað eru lögin? Hvað endurspegla þau, ekki fræðilega, heldur raunverulega? Hvert er hlutverk Alþingis, ekki samkvæmt Vísindavefnum, heldur raunverulega? Hvað er réttlæti? Það er merkilegt að hugsa til þess að Ríki Platós, rannsókn hans á réttlætinu, áhrifamesti heimspekitexti allra tíma, var ekki lesið í lagadeild.

Mig langar að ljúka þessari hugleiðingu á orðum franska skáldsins Anatole France, sem fæddur var árið 1844, um lögin og jafnrétti þeirra.

„Í öllu sínu stórbrotna jafnrétti banna lögin bæði hinum ríku og fátæku að sofa undir brú, betla á götunum og stela brauði.“

Tengdar fréttir

Pistlar

Ísland er óafsakanlega dýrt II – ógerlegt að lifa spart

Pistlar

Ísland er óafsakanlega dýrt land

Pistlar

Við erum bara að reyna að hafa gaman

Pistlar

Af hverju er Ísland svona ógeðslegt?