Hækka götuna um allt að tvo metra

16.04.2020 - 09:35
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Akraneskaupstaður
Bæjarstjórn Akraness samþykkti í fyrradag að breyta deiliskipulagi Sementsreitsins. Þar stendur til að reisa íbúðabyggð í stað sementsverksmiðjunnar sem var þar áður. Fyrir lá að reisa þyrfti sjóvarnagarð til að verja íbúðabyggðina fyrir ágangi sjávar. Nú hefur verið ákveðið að hækka götuna um allt að tvo metra þar sem hún liggur meðfram sjónum. Við það verður framkvæmdin hagkvæmari en annars hefði verið segir bæjarstjórinn á Akranesi.

Með breytingunni verður gengið lengra en áður til að mæta hækkandi sjávarstöðu til að verja byggð innan við Faxabraut. Upphaflega var gert ráð fyrir að reisa sjóvarnagarð en halda götunni nokkurn veginn óbreyttri. Eftir að hönnunarvinna fór í gang hjá Mannviti kom í ljós að betra væri að hækka götuna um allt að tvo metra. 

Mynd með færslu
 Mynd: Mannvit
Efri myndin sýnir fyrri áform en sú neðri þau sem gert er ráð fyrir með deiliskipulagsbreytingunni.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir að framkvæmdin verði hagkvæmari með þessum hætti. Það eigi bæði við um hluta Vegagerðarinnar og við framkvæmdir Akranessbæjar í framhaldinu. Það sé vegna þess að hækkun götunnar innan sjóvarnagarðarins kalli á annars konar og hagkvæmari framkvæmdir en ef aðeins yrði ráðist í að reisa sjóvarnagarðinn. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi