Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

382 aðframkomnum flóttamönnum bjargað úr hafsnauð

16.04.2020 - 06:22
epa04757706 Refugees from Myanmar and Bangladesh are rescued by Aceh fisherman in Julok, East Aceh, Sumatra, Indonesia, 20 May 2015. Indonesian fishermen rescued more than 370 migrants, many from Myanmar's Rohingya minority, a rescue official said.
Fjöldi báta og skipa af öllum stærðum og gerðum og í ýmsu ástandi hefur verið gerður upptækur í indónesískri, malasískri og bangladesskri landhelgi undanfarin misseri. Öll eiga þau skip það sameiginlegt að hafa verið notuð til að flytja fólk í neyð til þessara landa.  Mynd: EPA
Strandgæsla Bangladess bjargaði hátt í 400 langhröktum og hungruðum róhingjum sem verið höfðu á reki á Bengalflóa í nær tvo mánuði. 382 voru lífs um borð, aðframkomin af hungri og vosbúð, en hátt í 30 höfðu dáið um borð í skipinu, að sögn talsmanna strandgæslunnar. Talið er að fólkið hafi ætlað að komast til Malasíu og óstaðfestar fregnir herma að skipinu hafi verið snúið frá ströndum Malasíu og þvingað aftur á haf út, vegna kórónuveirufaraldursins.

Ekki er ljóst hvort flóttafólkið hafði lagt upp í sjóferðina frá Bangladess eða heimalandi sínu, Mjanmar. Shah Zia Rahman, yfirmaður í strandgæslu Bangladess, sagði fólkið hafa verið um borð í stórum en þó yfirfullum togbát þegar það fannst og var bjargað.

„Þau sultu heilu hungri. Þau voru búin að vera á reki í 58 daga, þar af síðustu sjö í okkar landhelgi,“ sagði Rahman. Að hans sögn hófst leit að skipinu eftir að ábending barst frá sæfaranda, og stóð leitin í þrjá sólarhringa. Hópurinn, sem samanstendur að mestu leyti af konum og börnum, er nú kominn í land en fær ekki að fara langt enn sem komið er. „Við höfum girt af svæðið þar sem þau eru. Við gátum ekki yfirheyrt þau, vegna hættunnar á því að þau séu mögulega smituð af kórónuveirunni,“ sagði Rahman við AFP. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV