Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vinnslustöðin undrast viðbrögð ráðherra í réttarríki

15.04.2020 - 18:42
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Vinnslustöðinni. - Mynd: RÚV / RÚV
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar segir að það hafi ekki átt að koma stjórnmálamönnum á óvart að sjö útgerðir væru með mál í gangi gegn stjórnvöldum vegna makríls, sem endaði með að Hæstiréttur dæmdi að ríkið væri bótaskylt. Hann segir ummæli ráðherra sérkennileg og segir að hann hefði frekar búist við slíku í ríkjum þar sem ekki er réttarríki.

Úgerðirnar Eskja, Gjögur, Huginn, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan, Skinney Þinganes og Vinnslustöðin hafa samtals farið fram á 10,2 milljarða króna í skaðabætur. 

Reikningurinn ekki sendur skattgreiðendum heldur útgerðinni

Bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gagnrýndu útgerðirnar á Alþingi í gær. Katrín sagði að sér finndist eðlilegt að fyrirtækin íhuguðu að draga kröfur sínar til baka. Bjarni sagði að fiskveiðistjórnunarkerfið væri ekki náttúrulögmál heldur ákveðið á Alþingi. Möguleg innbyrðisdeila milli útgerða um aflaheimildir yrði ekki leyst á kostnað skattgreiðenda. Stjórnvöld myndu taka til fullra varna í málinu:

„Og ég hef reyndar bara góðar væntingar um að við munum hafa sigur í því máli. En ef svo ólíklega vill til að það mál fari ríkinu í óhag þá er það einfalt mál í mínum huga að reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur. Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni, það er bara svo einfalt,“ sagði Bjarni Benediktsson á Alþingi í gær. 

Gengur ekki að tjónþolar séu skattlagðir fyrir greiðslu á tjóninu 

„Það er náttúrulega bara mjög sérkennilegt. Maður hefði svona búist við því í einhverjum öðrum ríkjum heldur en réttarríki að fara inn á þann veg,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

„Það gengur augljóslega ekki að þeir sem að verða fyrir tjóni af völdum ríkisins að þeir séu síðan skattlagðir til greiðslu á því tjóni sem að ríkið olli þeim.“

Hann segir að strax upp úr aldamótum hafi útgerðirnar sem fóru í makríl upphaflega sent erindi til stjórnvalda, sem ekki hafi verið svarað. Þessar útgerðir hafi verið með frumkvöðlarétt, sem þá hafi verið í lögum.

„Síðan var reglugerð sett um það að það ætti að fara að kvótasetja samkvæmt lögum. Þá var sett reglugerð um það að það ættu aðrir að komast inn í það að veiða makríl, sem sagt sem að þeir höfðu ekki neina veiðireynslu fyrir. Og ég skil það alveg sem Bjarni segir að þarna er sko ríkið inni á milli,“ segir hann.

200 milljarða króna aflaverðimæti

Hann segir að frá 2006 til 2018 hafi útgerðir sem stundað hafi makrílveiðar dregið að landi aflaverðmæti upp á 200 milljarða króna. Af þeirri upphæð hafi 72% runnið í vasa ríkis, sveitarfélaga, launþega og annara heldur en útgerðarmanna.

„Þannig að ég sé ekki annað en að við höfum aldeilis lagt talsvert af mörkum til þjóðarbúsins fram til þessa dags.“