Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tæpar 40 milljónir í nýsköpunaraðgerðir á Flateyri

15.04.2020 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin fór á fundi sínum í gær yfir það hvernig framkvæmd og eftirfylgni aðgerða verði háttað á Flateyri í samræmi við tillögur aðgerðahóps sem skipaður var í kjölfar snjóflóðanna í janúar síðastliðnum. 

Aðgerðahópurinn skilaði í byrjun mars af sér tillögum um fimmtán aðgerðir sem allar geta haft jákvæða þýðingu fyrir framtíðarþróun samfélagsins og uppbyggingu.

Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt að leggja 13 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu á árinu 2020 til að fjármagna nýsköpunarstyrki og stöðu verkefnastjóra í nýsköpunar- og þróunarverkefnum. Þá verður 26 milljónum varið í verkefnið á næsta ári.  Ráðinn verður verkefnastjóri, staðsettur á Flateyri á vegum Vestfjarðarstofu, í samstarfi við Ísafjarðarbæ. Staða verkefnastjóra verður auglýst fljótlega.

Endurmat snjóflóðavarna er forgangsmál

Til að fylgja eftir öðrum tillögum aðgerðarhópsins og tryggja framgang þeirra verður skipuð verkefnisstjórn með fulltrúum úr forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sem falin verður ábyrgð á verkefninu í samstarfi við ábyrgðar- og samstarfsaðila einstakra aðgerða.

Forgangsverkefni er endurmat snjóflóðavarna fyrir ofan byggðina á Flateyri og gerð framkvæmdaáætlunar þar að lútandi. Samhliða verða möguleikar á vörnum fyrir hafnarsvæði sem og aðgerðir til að tryggja öryggi vegfarenda um Flateyrarveg við Hvilftarströnd í forgangi. Undirbúningur þessara verkefna er á áætlun en gert er ráð fyrir að Veðurstofan skili tillögum og greinargerð um framkvæmdir fyrir árslok, segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. 

Þegar var búið að undirrita samkomulag um 70 milljóna króna framlag ríkisins til þess að tryggja rekstur Lýðskólans á Flateyri næsta skólaár. Þá eru aðrar aðgerðir í vinnslu, svo sem er varðar skipulag og viðbúnað heilbrigðisþjónustu, rafmagnsöryggi og skoðun á leiðum til að bæta almenningssamgöngur milli Flateyrar og annarra byggðakjarna á svæðinu. Þá er stefnt að uppbyggingu heilsugæslusels, eins og aðgerðarhópurinn kom með tillögu um.

Öryggi grundvallarmál

Ívar Kristjánsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Sæbjargar, sagði við fréttastofu þegar tillögurnar voru lagðar fram að að Flateyringar hafi tekið vel í þær. Fyrst og síðast þurfi hins vegar að tryggja öryggi.

„Bara að fólk viti hvað það er gott að búa hérna og það sé mikils virði að tryggja öryggi okkar þannig að við getum haldið áfram að vera hér og fjölgað eins og við höfum verið að gera undanfarið. Tryggja skólann, bæði grunnskóla og lýðskólann. Þetta er allt upp á við og vonandi verður það bara áfram. Þess vegna þurfum við betra öryggi,“ sagði hann.

Tillögur aðgerðahópsins:

 • Aðgerðir sem fela í sér nýjar skuldbindingar fyrir ríkissjóð:
  • Skipulag og viðbúnaður heilbrigðisþjónustu á Flateyri – heilsugæslusel
  • Nýsköpunar- og þróunarverkefni fyrir Flateyri
  • Lýðskólinn
  • Beinn kostnaður vegna flóðanna
  • Björgunarbátur
 • Mikilvægar aðgerðir til að auka öryggi íbúa:
  • Snjóflóðavarnir fyrir byggð og hafnarsvæði
  • Snjóflóðavarnir fyrir Flateyrarveg
  • Endurskoðun á skipulagi og viðbragði almannavarna og lögreglu
  • Rafmagnsöryggi
 • Atvinnu- og byggðaaðgerðir:
  • Vinnumarkaðsaðgerðir
  • Byggðaþróunarverkefni í sjávarútvegi á Flateyri
  • Fiskeldi í Önundarfirði
  • Fjármögnun uppbyggingar og viðhalds atvinnuhúsnæðis
  • Íbúðarhúsnæði
  • Almenningssamgöngur