Samkomubannið breytist 4. maí

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, á blaðamannafundinum í Safnahúsinu við Hverfisgötu. - Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Samkomubannið breytist 4. maí. Þá mega 50 manns vera í sama rými í einu í staðinn fyrir 20 eins og nú er. Tveggja metra reglan verður áfram í gildi. Forsætisráðherra tilkynnti þetta á blaðamannafundi í gær.

Hægt að fara í klippingu og sjúkraþjálfun

Það má opna hárgreiðslustofur og snyrtistofur aftur 4. maí. Það verður líka hægt að fara í sjúkraþjálfun og nudd og til tannlæknis. Alls staðar verður að halda tveggja metra fjarlægð milli viðskiptavina eins og hægt er.

Sundlaugar áfram lokaðar

Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar. Reglur um skemmtistaði, krár og spilasali verða óbreyttar og slíkir staðir því áfram lokaðir.

Börn mega mæta á íþróttaæfingar

Það má hafa íþróttaæfingar úti fyrir börn úti en það mega ekki vera fleiri en 50 í hverjum hópi. Þar þarf líka að passa upp á tveggja metra fjarlægð, sérstaklega hjá eldri börnum.

Aðeins fjórir saman á æfingum fullorðinna

Íþróttaæfingar fyrir fullorðna má hafa utandyra. Þó mega í mesta lagi fjórir æfa eða leika saman. Það má ekki snerta aðra á æfingum og það verður að halda tveggja metra bili á milli allra.

Áfram 100 í einu í matvöruverslunum

Það má áfram leyfa 100 manns að vera inni í matvörubúðum og lyfjabúðum í einu.

Ætla að slaka varlega á samkomubanni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það verði að fara hægt og rólega í að afnema samkomubannið. Rúmlega 1.700 manns hafa verið greindir með COVID-19 hér á landi og af þeim hafa rúmlega hundrað lagst inn á sjúkrahús. Undanfarið hafa færri greinst með kórónuveiruna. Þess vegna er talið að faraldurinn sé á undanhaldi. Það er samt mikilvægt að fylgja öllum reglum áfram svo að hann blossi ekki upp aftur. Þórólfur segir að samkomubannið verði endurskoðað með þriggja til fjögurra vikna millibili.

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi