Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ferðir til og frá útlöndum takmarkaðar fram eftir ári

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Ferðir Íslendinga til og frá útlöndum verða takmarkaðar fram eftir ári. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún segir að það sé mikilvægt að draga ekki of hratt úr samkomubanninu.

Ferðamenn mögulega bannaðir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það verði að koma í veg fyrir að kórónuveiran blossi upp aftur eftir að það hefur tekist að ná tökum á útbreiðslu hennar.

„Ef við erum nokkurn veginn búin að halda henni niðri hér innanlands, þá er eina leiðin fyrir veiruna að ná sér á strik að hún komi utan frá, frá útlöndum með ferðamönnum eða einhverju öðru. Við þurfum að reyna að meta hvað við getum gert,“ segir Þórólfur. Það þarf að finna út hvernig er hægt að koma í veg fyrir að ferðamenn beri veiruna aftur til landsins. Hann segir að það sé til dæmis hægt að banna erlendum ferðamönnum og koma til Íslands. En það þurfi líka að takmarka ferðir Íslendinga til útlanda.

„Það væri hægt að gera það á ýmsa vegu. Á meðan við höfum ekki góða bólusetningu gætum við til dæmis reynt að búa til einhvers konar vottorð um að menn hafi annað hvort fengið veiruna, og að það sé staðfest, eða þá að menn séu með mótefni gegn veirunni, og þá geti þeir ferðast,“ sagði Þórólfur. Hann segir að það sé verið að kanna allar leiðir sem hægt er að nota til að koma í veg fyrir að veiran berist aftur til landsins.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur