Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

99 farþegar í stað 84 þúsund

15.04.2020 - 06:44
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Lausafé Isavia þornar upp á fimm mánuðum ef félagið hefur engar tekjur, segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri fyrirtækisins, í viðtali við Morgunblaðsins. Algjört hrun hefur verið í flugi til og frá landinu. Til marks um það eru að aðeins 99 farþegar fóru um flugvöllinn um páskahelgina í ár. Í fyrra fóru rúmlega 84 þúsund um flugvöllinn á sama tíma.

Þetta kemur fram í Viðskiptamogganum, fylgiriti Morgunblaðsins í dag. Þar er haft eftir Sveinbirni að hratt gangi á lausafé Isavia verði flugsamgöngur lengi í lamasessi. Hann segir að lausafjárstaðan sé sterk en að mikill kostnaður valdi því að án tekna þorni sjóðir félagsins upp á fimm mánuðum. 

Ríkisstjórnin tilkynnti í síðustu viku að Isavia fengi fjögurra milljarða króna framlag til að ráðast í verkefni sem hefðu að hluta stöðvast vegna minnkandi tekna. Það fjárframlag átti að nota í framkvæmdir og undirbúning framkvæmda og skapa störf sem ella hefðu ekki orðið til núna. Til stóð að fjármagna hluta verkefnanna með tekjum Isavia en þegar þær gufuðu upp steig ríkið inn.

Morgunblaðið hefur eftir Sveinbirni að auðveldlega megi gera ráð fyrir því að farþegar verði meira en helmingi færri í ár en í fyrra. Þá hafði þeim þó fækkað um rúmlega fjórðung frá árinu 2018.

Sveinbjörn segir í samtali við Moggann að reynt verði að forðast að segja upp fólki. Þó hafi 101 verið sagt upp fyrir síðustu mánaðamót. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í síðustu viku, að leitað hefði verið til starfsfólks Isavia. Þegar COVID-19 faraldurinn hófst kom í ljós að þörf væri fyrir fleira starfsfólk til að sinna öryggisgæslu, flutningum og margvíslegum öðrum verkefnum. Páll sagði að það hefði legið í augum uppi að reynsla fólks af störfum á Keflavíkurflugvelli nýttist vel til þeirra verka. Því hafi verið haft samband við forstjóra Isavia og fólk þaðan fengið til starfa á spítalanum.