Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Trump segir Fauci ekki á förum

14.04.2020 - 05:49
epa08361379 Director of the National Institute of Allergy and Infectious Diseases Dr. Anthony Fauci (L) listens to US President Donald J. Trump (R) at the Coronavirus Task Force press briefing at the White House in Washington, DC, USA, 13 April 2020.  EPA-EFE/Yuri Gripas / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ABACA POOL
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir forstöðumann ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar öruggan í starfi, þrátt fyrir að forsetinn hafi á sunnudag birt færslu á Twitter þar sem kallað er eftir uppsögn hans. Trump var spurður að því á blaðamannafundi í gær hvort hann hafi ekki tekið eftir kröfunni um brottrekstur í færslunni sem hann dreifði, sagðist hann taka eftir öllu og þetta væri bara skoðun einhvers.

Trump birti á sunnudagskvöld færslu á Twitter þar sem fjölmiðlar voru gagnrýndir fyrir umfjöllun um aðgerðir forsetans vegna kórónuveirufaraldursins. Eins var Anthony Fauci, forstöðumaður ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunarinnar, gagnrýndur fyrir ummæli sín í viðtali við New York Times um helgina, þar sem hann sagði að sérfræðingar hafi óskað eftir því að Bandaríkjastjórn myndi bregðast fyrr við. Loks er kallað eftir því að Fauci verði rekinn, undir myllumerkinu #FireFauci.

Trumps sagði á blaðamannafundinum í gær að honum líkaði vel við Fauci og hann væri frábær í sínu starfi. Hann viðurkenndi þó að hann væri ekki alltaf sammála honum. 

Sjálfur sagði Fauci að orð hans hafi að einhverju leyti verið tekin úr samhengi, og að forsetinn hafi hlustað á tilmæli hans og annarra sérfræðinga. Hann sagðist áfram ætla að veita forsetanum ráðleggingar byggðar á staðreyndum. Hann sagðist ekki vilja ganga í gegnum það sama og hann hafi gengið í gegnum síðustu daga eftir viðtal hans við Times. Hann sagði þó augljóst að margt hafi mátt betur fara.